Amman gekk með barnið

Amman fæddi barn dóttur sinnar. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki …
Amman fæddi barn dóttur sinnar. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. AFP

Kona í Bretlandi fæddi barnabarn sitt en hún var staðgöngumóðir fyrir dóttur sína. Hin 45 ára gamla Julie Bradford gekk með barnið vegna þess að dóttir hennar, Jessica Jenkins, er ófrjó eftir að hafa gengist undir krabbameinsmeðferð.

Jenkins, sem er 21 árs gömul, lét frysta egg úr sér áður en hún hóf krabbameinsmeðferðina fyrir þremur árum síðan. Sagði hún að nýfæddi sonur hennar, Jack, væri fullkominn að öllu leyti.

„Mamma mín er hugrakkasta og besta kona í heimi. Ég elska hana svo mikið fyrir að hafa gefið mér strákinn minn,“ sagið Jenksins. „Mig hefur dreymt um að verða móðir í langan tíma og nú hefur sá draumur ræst.“

Jenkins og eiginmaður hennar ákváðu að fara í glasafrjóvgun eftir að hún hafði verið í hléi frá lyfjameðferð í tvö ár. „Þeim tókst að taka 21 egg úr mér áður en ég hóf lyfjameðferðina en aðeins tíu af þeim voru nothæf,“ sagði Jenksins.

Móðirin, Bradford, sagði að hún hefði verið ánægð að geta hjálpað dóttur sinni. „Jess hefur lengi langað að verða móðir. Þegar krabbameinið virtist ætla að taka það frá henni vorum við niðurbrotnar. Ég ákvað að hjálpa henni með því að vera staðgöngumóðir hennar,“ sagði Bradford, og bætti við að það hefði verið heiður að ganga með barn dóttur sinnar

„Við höfum dvalið löngum stundum á spítala síðustu misserin. Ég er svo ánægð að síðasta heimsókn var svona gleðileg.“

Frétt BBC um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert