Leituðu vars í menguðu vatni

Gæsahópur. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki.
Gæsahópur. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki. AFP

Stórhríð olli því að stór hópur þúsunda snjógæsa leituðu vars í vatni í gamalli opinni námu í Montana í Bandaríkjunum. Vatnið var hans vegar súrt og mengað af málmum þannig að þúsundir gæsa drápust. Starfsmenn námunnar hafa síðan reynt að hrekja fugla burt frá vatninu.

Mark Thompson, umhverfisstjóri Montana Resources, annars tveggja fyrirtækja sem bera ábyrgð á Berkeley-námunni í Butte, segir að vitni lýsi aðkomunni að námunni sem „700 ekrum af hvítum fuglum“ í lok síðasta mánaðar.

Árið 1995 drápust 342 fuglar í námunni sem olli því að fyrirtækin gripu til mótvægisaðgerða til að vernda fuglana fyrir menguðu vatni. Thompson segir að fuglarnir sem hafa drepist nú séu margfalt fleiri en þá. Starfsmenn námunnar hafa síðan gert sitt besta til að fæla fuglana frá svo þeir lendi ekki í vatnsbóli námunnar.

Fyrirtækin ætla að rannsaka hvað olli því að þær aðstæður komu upp að þúsundir fugla hófu farflug sitt seint og lentu í stórhríð sem neyddi þá til að lenda í eina opna vatnsbólinu á svæðinu í námunni.

The Guardian hefur eftir Jack Kirkley, prófessor í fuglafræði við Montana-háskóla, að mildir vetur síðustu ár hvetji fugla ekki til að halda suður á bóginn eins snemma og áður. Í sumum tilfellum hafi fuglar orðið um kyrrt á svæðum sem þeir hafa aldrei haft vetrarsetu á áður.

Frétt The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert