„Mamma, ég er að deyja“

Ættingjar fórnarlambanna komu saman til minningarstundar í Oakland. Þau krefjast …
Ættingjar fórnarlambanna komu saman til minningarstundar í Oakland. Þau krefjast ítarlegrar rannsóknar á upptökum eldsins. AFP

„Mamma, ég er að deyja,“ skrifaði ung kona í skilaboðum til móður sinnar, rétt áður en hún lést í eldsvoða á skemmtistað í vörugeymslu í Oakland í Kaliforníu á föstudagskvöld.  Talið er að á milli 50 og 100 ungmenni hafi verið á tón­leik­um í hús­inu, sem var notað sem lista­smiðja, þegar eld­ur­inn kom upp. 36 þeirra létust. Búið er að bera kennsl á öll líkin utan eins.

Yfirvöld telja nú líklegast að eldurinn hafi kviknað út frá ísskáp í vörugeymslunni. 

Lögreglustjórinn Greg Ahern sagði fjölmiðlum frá því í dag að móðir eins fórnarlambsins hefði sagt lögreglunni frá skilaboðum sem hún fékk frá deyjandi dóttur sinni. „Mamma, ég er að deyja,“ skrifað stúlkan. Fleiri foreldrar hafi fengið sambærileg skilaboð frá börnum sínum. Þá segir hann að slökkviliðsmenn hafi fundið tvö fórnarlambanna í faðmlögum. 

Rekstrarstjóri vöruhússins, sem breytt hafði verið í listaskemmu, sagðist miður sín yfir harmleiknum en sagðist ekki bera ábyrgð á honum. Hann sagðist iðulega sofa í skemmunni ásamt börnum sínum en að kvöldið sem eldsvoðinn varð hafi hann gist á hóteli.

Borgaryfirvöld í Oakland höfðu fengið þrjár ábendingar um að öryggi væri ábótavant í húsinu áður en eldurinn braust út. 

Lögreglan rannsakar enn eldsupptök. 

Frétt Sky um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert