Óska eftir vopnahléi í Aleppo

Frá Aleppo. Sýrlenski stjórnarherinn hefur náð 75% af austurhluta Aleppo …
Frá Aleppo. Sýrlenski stjórnarherinn hefur náð 75% af austurhluta Aleppo á sitt vald. AFP

Sýrlenskir uppreisnarmenn í austurhluta Aleppo hafa óskað eftir fimm daga vopnahléi. Vilja þeir með því að óbreyttum borgurum gefist færi á því að yfirgefa borgina en hörð átök hafa geisað und­an­farn­ar vik­ur og hef­ur stjórn­ar­her­inn nú náð um 75% af aust­ur­hluta borg­ar­inn­ar á sitt vald.

„Það ætti annaðhvort að vernda óbreytta borgara eða hleypa þeim á svæði þar sem þeir lifa ekki undir miskunn Assad og hans fylgismanna,“ sagði í yfirlýsingu uppreisnarmanna.

Uppreisnarmenn segja að almenningur sé í mikilli hættu og þeir styðji aðgerðir sem lini þjáningar þeirra. Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kanada, Ítalía og Þýskaland hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem krafist er vopnahlés á stundinni til að hægt verði að aðstoða óbreytta borgara.

Sýrlenska ríkisstjórnin hefur útilokað frekari vopnhlé og Rússar hafa kallað uppreisnarmennina sem eftir eru í Aleppo hryðjuverkamenn.

Tugir þúsunda óbreyttra borgara eru enn í austurhluta Aleppo.

Frétt BBC um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert