Vannært barn eitt hinna „heppnu“

Stríðið í Jemen hefur kostað þúsundir mannslífa.
Stríðið í Jemen hefur kostað þúsundir mannslífa. AFP

Fjöldi vannærðra barna í Jemen hefur aukist um 200% á tveimur árum. Börnin þurfa nauðsynlega aðhlynningu en í þessu stríðshrjáða landi er hana sjaldnast að fá. Helmingur sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva í landinu er hættur starfsemi. Það eru engir peningar til að reka heilbrigðisþjónustuna. Stöðugar árásir eru gerðar á vegi og brýr svo að nær ómögulegt er að koma neyðarbirgðum milli svæða. Uppreisnarmenn gera slíkar birgðir ítrekað upptækar því þeir vilja stjórna flæði þeirra um landið.

Opinberir starfsmenn, m.a. þeir sem vinna í heilbrigðisþjónustu, hafa ekki fengið laun í að minnsta kosti fjóra mánuði. Stríðið í Jemen hefur nú staðið í tvö ár. Og ástandið fer sífellt versnandi. Það bitnar, eins og svo oft í slíku ástandi, aðallega á börnunum.

Í frétt BBC er fjallað um hann Ibrahim litla. Höfuð hans virðist sérstaklega smátt. Lítill líkami hans er svo agnarsmár að bleian hans, sem er sú minnsta sem völ er á, er alltof stór. Augun standa út úr höfðinu. Hann er meðal þeirra þúsunda barna sem eru vannærð í landinu.

Þrátt fyrir þetta er Ibrahim meðal hinna „heppnu“. Hann er þó á lífi. Sömu sögu er ekki hægt að segja um tvíbura bróður hans. Nú er Ibrahim þriggja vikna. Móðir hans situr við rúmið hans og strýkur honum um vangann þegar hann grætur. 

Fjölskylda Ibrahims hefur þurft að flýja heimili sitt, líkt og þrjár milljónir Jemena. Lífsbaráttan er hörð og snýst um það eingöngu að finna mat. Faðir hans er leigubílstjóri en það er ekkert að gera, enga kúnna að fá. Fjölskyldan fær því mjög óreglulega að borða.

Samtökin Læknar án landamæra reyna að veita sem flestum aðstoð. En verkefnið er risavaxið. 

„Kerfið er að hrynja, sjúkrahúsum er reglulega lokað, svo það er skelfilegt að sjá hvernig þetta land, sem var fátækt fyrir, sekkur dýpra og dýpra dag hvern,“ segir Colette Gadenne, verkefnastjóri Lækna án landamæra í Jemen.

Lífsviðurværið hefur verið tekið frá mörgum Jemenum. Bændurnir hafa verið flæmdir með sprengjum af jörðum sínum. Börnin eru vannærð og veik. Samtök á börð við Save the Children reka nokkrar færanlegar heilsugæslustöðvar og reyna að nálgast það fólk sem ekki kemst milli staða.

Skortur er á hreinu vatni og hefur kólerufaraldur brotist út. Ofan á allt saman. Óteljandi tilfelli niðurgangs og lungnabólgu hafa komið upp. Fyrir slíku eru börnin sérstaklega viðkvæm. 

Stríðið í Jemen hefur fallið í skugga á öðrum harmleikjum heimsins, s.s. stríðsins í Sýrlandi og Írak. Engan veginn hefur náðst að fjármagna neyðarverkefni í landinu.

„Manngæskan er ekki lengur fyrir hendi hér,“ segir Jamie McGoldrick, embættismaður Sameinuðu þjóðanna. „Heimsbyggðin lítur undan þegar ástandið í Jemen er annars vegar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert