Hótaði foreldri frá Sandy Hook

Samsæriskenningasmiðir hafa spunnið upp lygar um að fjöldamorðið í Sandy …
Samsæriskenningasmiðir hafa spunnið upp lygar um að fjöldamorðið í Sandy Hook-skólanum hafi verið skipulagt af stjórnvöldum til að búa til afsökun til að herða byssulöggjöfina. AFP

Lögreglan í Flórída hefur handtekið konu sem hótaði foreldri barns sem lést í skotárásinni í Sandy Hook-skólanum lífláti. Konan trúði því að skotárásin hefði verið sett á svið og hefði í raun aldrei átt sér stað. Þetta er í annað skiptið á innan við viku sem samsæriskenning leiðir til handtöku.

Konan sem var handtekin er 57 ára gömul. Hún er sökuð um að hafa sent foreldri eins þeirra tuttugu barna sem vopnaður maður skaut til bana í Sandy Hook-grunnskólanum í Connecticut fyrir fjórum árum fern skilaboð. Þar á meðal voru „Þú munt deyja“ og „Dauðinn nær þér von bráðar“.

Fórnarlamb skilaboðanna er ekki nafngreint í ákærunni en New York Times segir að líklega sé þar um að ræða föður drengs sem var yngsta fórnarlamb fjöldamorðingjans. Auk barnanna tuttugu sem voru á aldrinum sex til sjö ára myrti byssumaðurinn sex fullorðna starfsmenn skólans 14. desember árið 2012.

Krafðist sönnunar fyrir tilvist látins sonar

Allt frá því að fjöldamorðið átti sér stað hafa samsæriskenningasmiðir spunnið upp galnar kenningar um að ríkisstjórn Baracks Obama forseta hafi skipulagt skotárásina til þess að búa til yfirskyn til þess að herða byssulöggjöfina. Samkvæmt öðrum kenningum átti árásin sér hreinlega aldrei stað.

Faðirinn sem um ræðir hefur barist gegn þessum samsæriskenningum og sent inn kvartanir til lögreglu, saksóknara og einkafyrirtækja vegna þeirra. Fyrir það hefur hann sætt árásum samsæriskenningasmiðanna.

Í grein sem maðurinn skrifaði í dagblaðið The Sun-Sentinel kom fram að þegar hann bað prófessor við Florida Altantic-háskólann um að hætta að birta myndir af syni sínum á netinu hafi prófessorinn brugðist við með því að krefja hann um sönnun á því að barnið hafi raunverulega verið til. Kennarinn var rekinn í kjölfarið en kenndi föður drengsins um brotreksturinn. Hann hefur kært háskólann og krafðist þess að fá starfið aftur.

Frétt Mbl.is: Skotárás á „pizzagate“-staðnum

Mikið hefur verið rætt um lygafréttir eftir að þær urðu áberandi í kringum forsetakosningarnar í Bandaríkunum í haust og vetur. Um helgina var 28 ára gamall karlmaður handtekinn eftir að hann hleypti af skotvopni á vinsælum pítsustað í Washington. Maðurinn sagðist vera að rannsaka hvort staðurinn væri í raun leynilegt skálkaskjól fyrir barnaníðingshring á vegum Hillary Clinton og fleiri demókrata eins og samsæriskenningar sem dreift hefur verið á netinu eru um. 

Frétt New York Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert