Kynsjúkdómar hrjá blómabörnin

Óvarið kynlíf er ein orsök þess að kynsjúkdómasmit eru tíðari …
Óvarið kynlíf er ein orsök þess að kynsjúkdómasmit eru tíðari meðal eldra fólks en áður. Getty images

Mun fleiri Bretar á aldrinum 50-70 ára smitast af kynsjúkdómum í dag en fyrir fjórum árum. Hefur slíkum smitum fjölgað um 38% á þessu tímabili, samkvæmt opinberum upplýsingum. Skýringin er m.a. sögð aukin tíðni hjónaskilnaða og óvarið kynlíf.

Í frétt Telegraph um málið er haft eftir lækni að konur á þessum aldri, sem hafi engar áhyggjur af því að verða óléttar, og karlmenn sem hafi undirgengist ófrjósemisaðgerðir, setji sig í auknum mæli í hættu á að smitast af kynsjúkdómum með því að stunda óvarið kynlíf.

Í tölum landlæknisembættisins í Bretlandi kemur fram að meirihluti fólks í þessum aldurshópi stundar kynlíf. Hins vegar sé það álit samfélagsins að þessi hópur hafi ekki lengur mikinn áhuga á kynferðissamböndum. Það sé þó ekki raunin. Fólk sem nú er á sextugs- og sjötugsaldri var upp á sitt besta á sjöunda áratugnum þegar miklar samfélagslegar breytingar áttu sér stað í samfélaginu, m.a. ákveðin bylting í kynhegðun fólks. Viðhorf þeirra er því annað en kynslóðanna á undan.

Aukin skilnaðartíðni hjá fólki yfir fertugu þýðir að mun fleira eldra fólk finnur sér nýjan maka síðar á lífsleiðinni en áður.

„Það er hugsanlegt að konur, sérstaklega þær sem komnar eru yfir breytingaaldurinn, noti ekki smokka því þær setji samansem merki milli þeirra og ótímabærrar þungunar frekar en kynsjúkdóma,“ segir læknirinn í samtali við Telegraph. „Með sama hætti er líklegt að karlmenn yfir fimmtugt, sem hafa farið í ófrjósemisaðgerðir, noti ekki smokka með bólfélögum sínum.“

Í skýrslu landlæknis um málið er einnig varað við því að fleiri tilfelli kynsjúkdóma séu ógreind þar sem fólk á þessum aldri veigri sér við  því að leita læknis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert