Leita fórnarlamba skjálftans í rústunum

Leit stendur enn yfir að fólki í rústum þeirra húsa sem hrundu í öflugum jarðskjálfta á eyjunni Súmötru í Indónesíu á þriðjudagskvöld. 102 hið minnsta létu lífið í skjálftanum, sem mældist 6,5 stig, og um 600 manns slösuðust.

Rúmlega 200 byggingar hrundu til grunna í jarðskjálftanum og óttast yfirvöld að margir séu enn fastir í húsarústum í Pidie Jaya-sýslu í Aceh-héraði, þar sem áhrifanna varð hvað mest vart.

Frétt mbl.is: 97 fundist látnir eftir jarðskjálftann

Þúsundir íbúa misstu heimili sín og hafa þurft að leita skjóls í neyðarskýlum og vinnur indónesíski Rauði krossinn, ásamt yfirvöldum, nú að því að koma neyðarvistum til fólks.

Þúsundir hermanna og björgunarsveitarmanna sinna nú björgunarstarfi á vettvangi og þá hafa indónesísk yfirvöld tilkynnt að fleiri vinnuvélar verði sendar á staðinn til að auðvelda björgunarstarf.

Fréttaritari BBC í bænum Meureudu, þar sem skemmdir urðu hvað mestar, segir björgunarstarf beinast hvað mest að byggingunum sem standa við markað bæjarins þar sem 20 manns var bjargað úr rústum í gær.

Um 245 byggingar skemmdust eða eyðilögðust í Pidie Jaya og Bireuen, sem er nærliggjandi sýsla. Þá hafa einnig orðið miklar skemmdir á vegakerfi eyjunnar og rafmagn liggur víða niðri.

Um 150.000 manns búa í Pidie Jaya sem er við norður­strönd Aceh og um 110 km frá héraðshöfuðborg­inni Banda Aceh.

Fréttavefur BBC hefur eftir Hamdani, einum íbúanna, að jarðskjálftinn nú hafi verið öflugri en 2004, þegar meira en 160.000 manns létu lífið í Indónesíu af völdum flóðbylgju.

„Við hlupum strax út. Heimili okkar er við hafið þannig að við vildum komast í örugga fjarlægð; við lærðum þá lexíu frá flóðbylgjunni,“ sagði Hamdani.

Eng­in flóðbylgju­viðvör­un var gef­in út vegna jarðskjálft­ans í gær, sem varð á litlu dýpi í Pidie Jaya-sýslu.

Björgunarsveitarmenn bera hér lík barns sem grófst undir húsarústum í …
Björgunarsveitarmenn bera hér lík barns sem grófst undir húsarústum í jarðskjálftanum. 102 manns hið minnsta létu lífið í jarðskjálftanum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert