Mál er mótuðu forsetatíðina

Hryðjuverk íslamskra öfgamanna, mikil og ofbeldisfull mótmæli gegn breytingum á vinnulöggjöfinni og uppljóstranir um óreiðu í einkamálum hafa varpað skugga á forsetatíð François Hollande.

Frá og með janúar í fyrra hafa 238 manns beðið bana í hryðjuverkum jíhadista í Frakklandi, sem framin voru í nafni Ríkis íslams (IS) eða annarra öfgasamtaka. Hollande hlaut lof fyrir hvernig hann hélt á málum og fylkti þjóðinni á bak við sig eftir árásina í húsnæði grínblaðsins Charlie Hebdo og gyðingaverslun í París. Um 50 þjóðhöfðingjar tóku með honum þátt í göngu gegn hryðjuverkum í borginni en milljónir manna mótmæltu með sama hætti um land allt.

Tíu mánuðum seinna þótti forsetinn bregðast hratt og vel við fjöldamorðum útsendara IS sem drápu 130 manns í París; á börum og kaffihúsum, í tónlistarhúsinu Bataclan og við þjóðarleikvanginn. Hollande greip þegar í stað til neyðarlaga og lýsti yfir stríði á hendur hryðjuverkum. Sendi hann hersveitir til að halda uppi eftirliti í borgum og bæjum.

Þegar hins vegar 31 árs Túnismaður ók niður 86 manns sem voru að halda upp á þjóðhátíðardaginn í Miðjarðarhafsborginni Nice í júlí snerist dæmið við. Ásakanir fóru að koma fram á hendur stjórninni um að henni hefði mistekist að stemma stigu við ógninni af ögamönnum.

Það sem vildi varast hann ...

Áður en hann var kjörinn forseti gagnrýndi Hollande ástarlæti forvera síns, Nicolas Sarkozy, sem kvæntist ofurmódelinu Carla Bruni í forsetatíð sinni. Hét hann því að í einkahögum sínum myndi hann sjálfur verða eftirbreytniverður. Annað átti eftir að koma á daginn og forsetinn var ekki jafn mikið til fyrirmyndar og hann hafði haft hátt um að vera. Brestir komu í samband hans og sambýliskonunnar Valerie Trierweiler sem svo skildu þegar ljóstrað var upp um að forsetinn hefði til hliðar við sambúð þeirra Trierweiler haldið við leikkonuna Julie Gayet, sem er tæpum 20 árum yngri en hann. Var það ljósmyndari, svo nefndur paparazzi, sem kom upp um sambandið leynilega er forsetinn reyndi að laumast til ástarfundar við Gayet á litlu vélhjóli að næturþeli. Í framhaldinu sendi Trierweiler frá sér bók um sambúð þeirra Hollande. Rokseldist hún og þótti afar vandræðaleg fyrir forsetann, ekki síst það sem staðhæft var um að sósíalistaleiðtoginn fyrirliti fátæklinga og þá sem minna mættu sín.

Harkaleg mótmæli

Hollande var kosinn forseti á forsendum vinstristefnu sem meðal annars kvað á um allt að 75% skatta af tekjum. Skipti hann síðar um stefnu í þágu atvinnurekenda og freistaði þess að breyta ósveigjanlegri atvinnulöggjöf landsins. Tilgangurinn var að gera fyrirtækjum auðveldara að ráða fólk og reka. Var því mótmælt mánuðum saman um land allt, oft með ofbeldisfullum hætti. Á endanum komst frumvarpið í gegnum þingið í París en ekki fyrr en innihaldið hafði verið þynnt mjög út.

Herför hingað og þangað

Hollande gagnrýndi Sarkozy fyrir að senda franskar hersveitir í hernað til Afríku og sagðist myndu kalla þær heim næði hann kjöri í maí 2012. Af því varð ekki og hafði hann ekki setið á valdastóli nema rúmt hálft ár er hann sjálfur sendi herafla til Malí í janúar 2013 til að stöðva uppgang íslamista sem lagt höfðu undir sig hluta hinnar gömlu frönsku nýlendu. Þar eru sveitirnar enn. Og í desember sama ár sendi hann hersveitir til aðgerða í Mið-Afríkulýðveldinu til að koma á stöðugleika þar eftir ofbeldisátök ólíkra trúarhópa. Þá lét Hollande gera áætlanir um íhlutun í Sýrlandi 2013 en lagði þær á hilluna er ljóst varð að Bandaríkjamenn myndu ekki taka þátt. Biðu Frakkar með aðgerðir þar til í fyrra, 2015, og þá sem þátttakendur í fjölþjóðlegum aðgerðum gegn Ríki íslams. Árið áður hófu Frakkar hins vegar loftárásir á stöðvar IS í Írak, eða í september 2014.

Rifist um ríkisborgararétt

Hryðjuverkin í París urðu til þess að Hollande freistaðist til þess að breyta stjórnarskránni á þann veg að heimilt yrði að svipta dæmda hryðjuverkamenn frönskum ríkisborgararétti, væru þeir með tvöfalt ríkisfang. Til harðra deilna kom um siðsemi slíkra breytinga. Á endanum kippti Hollande að sér höndum og hætti við allt saman í mars í fyrra. Þetta mál sagði hann í síðustu viku vera það sem hann sæi einna mest eftir úr stjórnartíð sinni.

Aftur á móti sagði hann er hann sagðist ekki ætla sækjast eftir endurkjöri, að niðurstaða loftslagsráðstefnunnar í París í desember fyrir ári væri einn af hátindum stjórnartíðar hans. Lagði Hollande sig hart fram um að árangur næðist á ráðstefnunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert