Ráðherra fangelsaður fyrir skattsvik

Jérôme Cahuzac.
Jérôme Cahuzac. AFP

Fyrrverandi fjárlagaráðherra Frakklands,  Jérôme Cahuzac, var í dag dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir skattsvik og peningaþvætti. Eitt af hlutverkum hans í ríkisstjórn landsins var að elta uppi þá sem sviku undan skatti. 

Fyrrverandi eiginkona Cahuzac, Patricia Ménard, var dæmd í tveggja ára fangelsi fyrir sinn hlut í að fela milljónir evra á leynireikningum í útlöndum í gegnum ábatasamt fyrirtæki sem sérhæfir sig í hárígræðslum.

Patricia Ménard.
Patricia Ménard. AFP

Jafnframt var svissneski bankamaðurinn François Reyl dæmdur í eins árs skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 375 þúsund evrur í sekt fyrir að veita parinu aðstoð við skattsvikin. Banki hans, Reyl, þarf að greiða 1,87 milljónir evra sekt fyrir peningaþvætti.

Cahuzac, sem er 64 ára gamall lýtalæknir, viðurkenndi að hafa falið sjóði á aflandsreikningum til þess að fjöskyldan gæti haldið áfram að lifa lúxuslífi. Hann keypti meðal annars íbúðir fyrir börn sín í London og París og fór reglulega í leyfi til Máritíus

Málið vakti mikla athygli og reiði meðal almennings í Frakklandi og var ráðherrum í ríkisstjórn François Hollande í kjölfarið gert að gefa upp persónulegar eignir sínar. Er það í fyrsta skipti sem farið er fram á slíkt af hálfu frönsku ríkisstjórnarinnar enda löng hefð fyrir því í Frakklandi að fjármál fólks sé einkamál þeirra.

Skattsvikin áttu sér stað á árunum 1992-2013 og minnir um margt á glæpasögu og kennslubók í efnahagsbrotum á sama tíma.

 Í einum kaflanum gengur Cahuzac undir leyninafninu Birdie og tók við tveimur peningagreiðslum upp á 10 þúsund evrur úti á götu í París. 

Hjónin notuðu reikning hjá Royal Bank of Scotland á aflandseyjunni Mön til þess að millifæra ávísanir frá breskum viðskiptavinum sínum. Í fyrstu neitaði Cahuzac sök og höfðaði mál gegn fréttavefnum Mediapart sem fyrst birti fréttina af skattamálum þeirra árið 2012.

Myndskeið af ráðherranum ljúga að þingheimi var birt aftur og aftur á vefjum franskra fjölmiðla eftir að hann játaði loksins í apríl 2013, fullur iðrunar, að eiga svissneska bankareikninga.

Undir lok réttarhaldanna endurtók Cahuzac aftur og aftur að hegðun hans hafi verið óafsakanlegt. Þegar brestir komu í hjónaband þeirra stofnaði Ménard  sjálf eigin reikning í Sviss.

Lögmaður hennar, Sebastien Schapira, sagði við réttarhöldin að peningarnir væru ekkert annað en laun hennar fyrir endalausa vinnu, dag eftir dag, klukkutíma eftir klukkutíma, við hárígræðslur. Hann lýsti Ménard sem einfaldri konu sem hafi endað í svikamyllunni fyrir misskilning en hún játaði aðild að fjársvikunum í desember 2013.

François Hollande og Jérôme Cahuzac.
François Hollande og Jérôme Cahuzac. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert