Ætluðu að sprengja upp bænahús

Höfnin í Sydney. Þeir Al-Kutobi og Kiad ætluðu upphaflega að …
Höfnin í Sydney. Þeir Al-Kutobi og Kiad ætluðu upphaflega að sprengja upp mosku síja múslima í vesturhlut borgarinnar. AFP

Ástralskur dómstóll dæmdi í dag tvo múslima í 20 ára fangelsi. Mennirnir þeir Omar Al-Kutobi og Mohammed Kiad höfðu planað að sprengja upp bænahús í Sydney og „hálshöggva“ almenna borgara í nafni hryðjuverkasamtakanna Ríki íslams.

Þeir Al-Kutobi og Kiad, sem báðir eru á þrítugsaldri, voru handteknir í fyrra í íbúð sem þeir deildu. Þar fann lögregla veiðihníf, sveðju, heimagerð sprengiefni og svartan fána Ríkis íslams.

Þeir höfðu þá nýlokið við gerð myndbands þar sem Al-Kutobi, sem er íraskur að uppruna en hefur haft ástralskan ríkisborgararétt 2013, veifar hníf og hefur uppi hótanir. Þá fannst einnig bréf á heimilinu þar sem þeir lýsa því yfir að þeir séu vígamenn Ríkis íslams og að ætli að hálshöggva fólk.

Tveimur dögum áður en þeir voru handteknir í febrúar í fyrra, höfðu þeir Al-Kutobi og Kaid farið í mosku síja múslima í vesturhluta Sydney, þar sem þeir ætluðu að varpa sprengjunni. Þar sást hins vegar til þeirra og eftir að hafa náð að hrista lögreglu af sér, ákváðu þeir að ráðast gegn almennum borgurum.

Dómari dæmdi þá til að sæta að lágmarki 15 ára fangavist, áður en þeir gætu átt möguleika á reynslulausn. Nefndi dómarinn, úrskurðinum sínu til stuðnings, að þeir hefðu skipulagt aðgerðir sínar ítarlega og að undirbúningur hefði verið langt kominn.

Áströlsk yfirvöld segja að tekist hafi að koma í veg fyrir 11 hryðjuverkaárásir á ástralskri grundu sl. tvö ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert