Biden hvatti Trudeau til dáða

Biden og Trudeau í Kanada.
Biden og Trudeau í Kanada. Skjáskot/BBC

Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, hvatti Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada til að láta rödd sína heyrast, sérstaklega eftir að Donald Trump tekur við sem forseti Bandaríkjanna í janúar. Biden sótti Trudeau heim en heimsókn hans lauk í dag.

„Heimurinn mun eyða miklum tíma í að horfa á þig þar sem við sjáum fram á mestu áskoranirnar í heimsmálum síðan við lok seinni heimsstyrjaldarinnar,“ sagði Biden í heimsókn sinni til nágrannans í norðri.

Biden fullvissaði Kanadamenn um að gott samband þeirra við Bandaríkin muni ekki versna þrátt fyrir að Trump taki við forsetaembættinu.

Trudeau var hrærður þegar Biden tjáði sig um föður kanadíska forsætisráðherrans, sem einnig var forsætisráðherra:

„Það sést að þú ert góður faðir þegar börnin þín eru betri útgáfa af þér,“ sagði Biden.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, tók á móti Trudeau í Hvíta húsinu í mars og fór í heimsókn til Kanada í lok sumars.

Kanadískir ráðamenn segja að heimsókn Biden snúist ekki um ákveðnar stefnur heldur sé hún frekar tækifæri til að dýpka samband landanna.

Frétt BBC um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert