Giuliani ekki hluti af ríkisstjórn Trumps

Giuliani og Trump á góðri stundu.
Giuliani og Trump á góðri stundu. AFP

Donald Trump tilkynnti í dag að Rudy Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri New York, myndi ekki verða hluti af ríkisstjórn hans þegar Trump tekur opinberlega við sem forseti Bandaríkjanna í næsta mánuði.

Giuliani hefur af mörgum verið talinn líklegur til að verða tilnefndur í ráðherraembætti. Hann var meðal þeirra sem taldir voru líklegir til að verða utanríkisráðherra í nýrri stjórn Trumps en nú er ljóst að Giuliani hefur lýst því yfir að hann muni ekki gefa kost á sér.

Auk Giuliani hafa Mitt Rom­ney, fyrr­ver­andi rík­is­stjóri Massachusetts, Dav­id Petra­eus, fyrr­ver­andi for­stjóri CIA, Bon Cor­ker, formaður ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar öld­unga­deild­ar Banda­ríkjaþings og John Bolt­on, fyrr­ver­andi sendi­herra Banda­ríkj­anna hjá Sam­einuðu þjóðunum verið nefndir sem hugsanlegir kandídatar.

„Rudy [Giuliani] hefði verið frábær hluti af ríkisstjórninni. Ég virði hins vegar og skil ákvörðun hans um að vilja starfa áfram í einkageiranum,“ sagði Trump í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér vegna málsins.

„Ég gekk til liðs við kosningabaráttuna vegna þess að ég elska landið og hef verið vinur Trumps í 28 ár. Ég efast ekki um að hann verður frábær forseti. Þetta snýst ekki um mig, heldur það sem er best fyrir landið,“ sagði Giuliani meðal annars í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert