Grunaður hryðjuverkamaður handtekinn

Frá Rotterdam.
Frá Rotterdam. AFP

Lögreglan í Rotterdam í Hollandi handtók mann í vikunni sem grunaður er um að hafa verið að skipuleggja hryðjuverk.

Þegar lögregla leitaði á heimili mannsins á miðvikudag fannst þar Kalashnikov ásamt skotfærum og málverki af fána Ríkis íslams, samkvæmt saksóknara í borginni.

Einnig lagði lögregla hald á fjóra kassa af ólöglegum flugeldum, farsíma og 1600 evrur (190.000 íslenskar krónur) í seðlum.

Ekki var greint frá því hver hinn grunaði er en hollenskir fjölmiðlar greina frá því að um Hollending sé að ræða.

Yfirvöld greindu frá handtökunni í dag eftir að hinn grunaði kom fyrir dómara. Hann hefur verið úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald.

Ekki er víst hvað yfirvöld telja að maðurinn hafi ætlað að gera, hvort hann hafi tengst hópum Ríkis Íslams eða hvort hann hafi komið til Sýrlands eða Íraks.

Talsverð hætta er talin á hryðjuverkum í Hollandi en landið er á stigi fjögur af fimm í viðbúnaði vegna þess.

Frétt BBC um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert