Loksins ákært fyrir morðin

AFP

Fyrir 38 árum hvarf ungt breskt par en nokkrum vikum síðar kom í ljós að þau höfðu verið myrt. Loksins í gær var maður ákærður fyrir morðin auk þess sem hann er grunaður um að hafa myrt eiginkonu sína tíu árum áður.

Silas Duane Boston, 75 ára gamall Kaliforníubúi, hefur verið ákærður fyrir að hafa beitt Christopher Farmer og unnustu hans Peta Frampton ofbeldi þegar þau voru með honum á siglingu í Karabíska hafinu árið 1978. Hann batt þau á höndum og fótum, festi þunga hluti við nælonreipið og setti plastpoka yfir höfuð þeirra áður en hann varpaði þeim lifandi fyrir borð. 

Morðin voru framin um mánaðamótin júní/júlí 1978 en lík þeirra fundust á floti við vinsæla baðströnd í Gvatemala 8. júlí það sama ár. Boston var yfirheyrður nokkrum sinnum af lögreglu vegna hvarfs þeirra en enginn var handtekinn né ákærður fyrir morðin á þeim tíma. 

Nýverið var málið tekið upp á nýjan leik vegna rannsóknar á hvarfi eiginkonu Boston, Mary Lou Boston, árið 1968. Allt bendir til þess að hann hafi einnig myrt hana. Boston var handtekinn á hjúkrunarheimili í bænum Paradise í Kaliforníu í síðustu viku og leiddur fyrir dómara í gær. Þar neitaði hann sök.

Farmer og Frampton, sem voru bæði frá Manchester, voru nýútskrifuð úr háskóla, hún úr lögfræði og hann læknisfræði, og ætluðu að feraðast í eitt ár áður en alvara lífsins tæki við.

Þau fóru fyrst til Ástralíu og þaðan til Ameríku. Allan tímann voru þau í sambandi við fjölskyldur sínar á Englandi. Þau skrifuðu foreldrum sínum að þau hefðu hitt Boston þegar þau voru í Belís og að þau hefðu greitt honum fyrir að sigla með þau til Mexíkó á bát sínum.

Í bréfi sem Frampton ritaði foreldrum sínum 29. júní kom fram að siglingin væri ekki alltaf auðveld en með í för væru tveir synir Boston sem rifust stöðugt og faðir þeirra ætti erfitt með að hemja skap sitt. 

Christopher Farmer sést hér með sonum Boston, Vince og Russel.
Christopher Farmer sést hér með sonum Boston, Vince og Russel. Skjáskot af Sacramento Bee

Fjölskyldur enska parsins fóru að hafa áhyggjur þegar ekki hafði heyrst frá þeim í nokkrar vikur. Það tók yfirvöld einhvern tíma að átta sig á því að það væru lík þeirra sem höfðu fundist á reki við Gvatemala.  

Drengirnir vitni að morðunum

Það voru síðan synir Bostons, Vince og Russel, sem aðstoðuðu lögreglu við að upplýsa um málið en þeir greindu alríkislögreglunni frá að þeir hefðu orðið vitni að morðunum.

Vince, sem var 13 ára árið 1978, sagði lögreglu að hann hafi séð pabba sinn slá Farmer með kylfu og síðan reynt að stinga hann með flökunarhníf. Það tókst ekki betur en svo að hnífurinn brotnaði. Hann lýsti því síðan hvernig pabbi hans hafi bundið þau og hent þeim fyrir borð. 

Síðar gortaði Boston af morðunum og lýsti því fyrir gömlum vini hvernig hann hafi bundið þau, sett plastpoka yfir höfuð þeirra og hent þeim fyrir borð. Vinur hans greindi frá því við rannsóknina að Boston hafi sagt honum frá því að konan hafi heyrt skvampið þegar unnusti hennar hafnaði í sjónum. Hún hafi kallað nafn unnusta síns og nokkrum mínútum síðar endaði hún sjálf í votri gröf.

Synir Boston og vinur hans létu hins vegar ekki vita af þessu fyrr en við rannsóknina núna af ótta við hefndaraðgerðir af hálfu Boston. Russel segir að pabbi hans hafi verið undir áhrifum fíkniefna þegar hann myrti Framer og Frampton og að hann hafi hótað sonum sínum að þeir færu sömu leið ef þeir kjöftuðu frá.

Sagði henni að hlaupa og skaut síðan

Bæði Russell og Vincent segja að faðir þeirra hafi ekki látið nægja að gorta af því að hafa myrt þau heldur einnig móður þeirra og nokkra í viðbót. Boston er sakaður um að hafa farið með konu sína á óþekktan stað, skipað henni að hlaupa og skotið hana síðan í bakið á hlaupum. Boston á yfir höfði sér lífstíðardóm fyrir morðið á Frampton og Farmer.

Phillip Talbert, ríkissaksóknari í Kaliforníu, segir að það sé þrjósku lögreglunnar í Sacramento og alríkislögreglunnar að þakka að málið var endurvakið. 

Vince Boston segir að faðir hans hafi farið með þá til Belís þar sem hann keypti bátinn og var með köfunarkennslu. Á Boston að hafa verið á flótta undan réttvísinni en hann hafði verið kærður fyrir nauðgun í Kaliforníu.

Silas Boston lýsti því fyrir manni á sínum tíma hvernig hann hafi farið með Mary Lou í bíltúr á pallbíl sínum upp í sveit. Síðan hafi hann stöðvað bílinn og skipað henni að hlaupa. Boston sagði félaga sínum að hann hafi skotið á hana en ekki verið viss um hvar hann hafði hæft hana en vitað að hún væri enn á lífi því hún hafi spurt: Hvað um börnin? Þá á hann að hafa látið skotum rigna yfir hana þangað til hann var öruggur um að hún væri látin.

Boston þjáist af gigt og heyrir mjög illa. Hann var í hjólastól þegar hann kom fyrir dómara í gær og það var lögmaður hans sem lýsti hann saklausan af ákæru. Sjálfur sagði Boston ekki eitt einasta orð í réttarsalnum í gær.

Lögreglan í Sacramento rannsakaði málið.
Lögreglan í Sacramento rannsakaði málið. Lögreglan í Sacramento
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert