Norskur barnaníðingur dæmdur

AFP

Norðmaður á sjötugsaldri hefur verið dæmdur í átta ára fangelsi fyrir að brjóta gegn 62 börnum í gegnum Skype. Maðurinn neyddi börnin til þess að taka þátt í kynlífi sem var streymt beint á netið.

Samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins braut maðurinn, sem er 66 ára og frá Austevoll, gegn börnum í Noregi og Filippseyjum. Fram kom við réttarhöldin að hann sendi fjölskyldum barna á Filippseyjum peninga gegn því að þær sæju til þess að börnin tækju þátt í kynferðislegu ofbeldi fyrir framan myndavélar.

Hluti barnanna var undir 14 ára aldri þegar maðurinn beitti þau kynferðislegu ofbeldi. Samkvæmt NRK eru 20 af 62 börnum frá Filippseyjum. Maðurinn tældi 42 börn í Noregi í gegnum spjallþræði á netinu þar sem hann þóttist vera unglingur og ávann sér traust fórnarlamba sinna. Síðan fékk hann þau til kynferðislegra athafna fyrir framan myndavélar.

Frétt NRK

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert