Sviku fé út úr sjóði fórnarlamba hryðjuverkaárása

Mannfjöldinn við Stade de France í kjölfar árásanna. Þau Damjanovic …
Mannfjöldinn við Stade de France í kjölfar árásanna. Þau Damjanovic og Vasic fullyrtu að þau hefðu verið þar stödd þegar sjálfsvígsmaðurinn gerði árás, en voru í raun heima hjá sér í Suður-Frakklandi. AFP

Dómstóll í Frakklandi dæmdi í dag par til fangelsisvistar fyrir að sækja fé í sjóð fyrir fórnarlömb hryðjuverkanna í París í fyrra, þrátt fyrir að hafa verið víðsfjarri þegar hryðjuverkin voru framin.

Sasa Damjanovic fékk sex ára fangelsisdóm og Vera Vasic fékk þriggja ára dóm og eru þetta þyngstu dómar sem felldir hafa verið í sambærilegum málum. Þau Damjanovic og Vasic höfðu fengið greiddar 60.000 evrur, rúmar sjö milljónir króna, úr sjóði fórnarlamba hryðjuverkaárásanna í París í fyrra þar sem 130 manns létu lífið.

Parið sagðist hafa verið í mannfjöldanum utan við Stade de France-íþróttaleikvanginn í París þegar sjálfsvígsmaður gerði þar árás. Hið rétta er að þau voru heima hjá sér í Antibes í Suður-Frakklandi þegar árásin var gerð.

Upp komst um svikin þegar þau fóru einnig fram á bætur vegna árásarinnar í Nice í sumar, þegar flutningabíl var ekið inn í mannfjölda með þeim afleiðingum að 86 manns fórust.

Dómarinn sagði dóminum yfir parinu ætlað að virka sem víti til varnaðar. Þau Damjanovic og Vasic voru þegar búin að eyða fénu, m.a. í bílakaup, en þau sögðu dómstólnum að þau hefðu sótt um bæturnar til að greiða upp skuldir.

Fréttavefur BBC hefur eftir lögfræðingi skaðabótasjóðsins að í lok nóvember á þessu ári hafi verið búið að greiða út 46,5 milljónir evra í skaðabætur til 2.444 fórnarlamba hryðjuverkaárásanna í París.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert