Trump velur Puzder sem atvinnumálaráðherra

Andrew Puzder verður atvinnumálaráðherra í stjórn Trumps. Hann er mótfallinn …
Andrew Puzder verður atvinnumálaráðherra í stjórn Trumps. Hann er mótfallinn hækkun lágmarkslauna og segir Obamacare hafa fé af launþegum sem þeir annars gætu nýtt í að fara út að borða. AFP

Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, hefur tilkynnt að Andrew Puzder verði næsti atvinnumálaráðherra landsins. Puzder er framkvæmdastjóri skyndibitakeðju og er mótfallinn hækkun lágmarkslauna.

Puzder bætist þar með í hóp þeirra viðskiptajöfra sem munu eiga sæti í stjórn Trumps. Forsetinn sagði, þegar hann tilkynnti val sitt, að Puzder væri „þekktur fyrir baráttu sína fyrir launþega“. Fréttaavefur BBC segir að Puzder, sem er framkvæmdastjóri CKE Restaurants sem rekur skyndibitakeðjurnar Carl's Jr og Hardee's, hafi oft fullyrt að hækkun lágmarkslauna muni fækka störfum.

Atvinnumálaráðuneytið hefur m.a. umsjón með launaþróun og öryggi starfsfólk á vinnustað.

Puzder hefur gagnrýnt ráðuneytið fyrir að stefna á fjórar milljónir bandarískra launþega fái greidda yfirvinnu. Hann hefur einnig hafnað herferð starfsfólks skyndibitakeðja á landsvísu um að lágmarkslaun verði 15 dollarar á tímann, sem er helmingi hærra en lágmarkslaun þeirra eru í dag.

Segir Puzder auka öryggi og efnahag launþega

Í yfirlýsingu frá Trump segir að skipun Puzder í embætti atvinnumálaráðherra muni „auka öryggi og efnahag launþega“.

„Hann mun bjarga smáfyrirtækjum frá íþyngjandi og ónauðsynlegum reglugerðum sem nú hefta atvinnuvöxt og draga úr launaþróun,“ sagði í yfirlýsingu Trump.

Demókratar hafa gagnrýnt skipan Puzders harkalega og sagði Richard Trumpka, formaður AFL-CIO, sambands verkalýðsfélaga að í gegnum fyrirtækjarekstur sinn hafi Puzder orð á sér „fyrir að berjast gegn launþegum“.

Kann vel að meta fallegar bikiníklæddar konur að borða hamborgara

Puzder var einn af þeim fyrstu sem styrktu framboð Trump, en að sögn Washington Post styrkti hann kosningasjóði Trumps um rúmlega 330.000 dollara.

Hann hefur verið mótfallinn áætlun Obama í heilbrigðismálum og fullyrðir að Obamacare hafi fé af fjölskyldum launþega, sem þær annars gætu nýtt í að fara út að borða og það hafi leitt til kreppu í veitingaiðnaðinum.

Hann hefur líka hafnað alfarið þeirri gagnrýni að kvenfyrirlitning einkenni auglýsingar skyndibitakeðja sinna. „Ég kann vel að meta fallegar bikiníklæddar konur að borða hamborgar,“ sagði hann eitt sinn. „Mér finnst það vera mjög bandarískt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert