Felldu leiðtoga Ríkis íslams

Hermenn stjórnarhersins í Sýrlandi.
Hermenn stjórnarhersins í Sýrlandi. AFP

Herir bandalagsríkja, undir forystu Bandaríkjanna, hafa fellt leiðtoga Ríkis íslams í Sýrlandi. Þetta hefur varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna staðfest. Í dag hafa einnig borist fréttir af því að vígamenn Ríkis íslams hafi gert áhlaup á hina fornu borg Palmyra í Sýrlandi. Níu mánuðir eru liðnir síðan samtökin töpuðu yfirráðum í borginni. 

Leiðtoginn, Boubaker al-Hakim, var felldur er orrustuþotur vörpuðu sprengjum á skotmörk í Raqqa í Sýrlandi 26. nóvember. Talsmaður varnarmálaráðuneytisins, Ben Sakrisson, segir í yfirlýsingu að Al-Hakim hafi verið einn helsti leiðtogi Ríkis íslams á svæðinu og með mikil tengsl við íslamska skæruliða í Túnis og Frakklandi.

Al-Hakim var frá Túnis og er m.a. grunaður um að hafa tekið þátt í árásum þar í landi árið 2013.

Talsmaður varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna segir að með því að fella Al-Hakim hafi dregið úr mætti Ríkis íslams til að gera frekari árásir á Vesturlöndum og einnig verið slitið á tengsl hryðjuverkasamtakanna við aðra öfgamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert