Handtekinn vegna flugslyssins

Fólk minnist þeirra sem fórust í flugslysinu 28. nóvember.
Fólk minnist þeirra sem fórust í flugslysinu 28. nóvember. AFP

Yfirvöld í Bólivíu hafa handtekið annan mann í tengslum við flugslysið sem olli dauða 71 í lok nóvember. Meðal þeirra sem voru um borð og fórust voru leikmenn brasilíska fótboltaliðsins Chapacoense. Saksóknarar segja að búið sé að handtaka fyrrverandi starfsmann flugumferðarstjórnar, Gustavo Vargas Villegas. Faðir hans, sem einnig hefur verið handtekinn, er einn af eigendum flugfélagsins sem átti vélina sem hrapaði. Þeir hafa báðir neitað sök.

Komið hefur fram að vélin yfirgaf flugvöll í Bólivíu með of lítið eldsneyti í tönkunum. Ljóst er að vélin varð eldsneytislaus og hrapaði af þeim sökum.

Feðgarnir eru sakaðir um að hafa misbeitt valdi sínu og vanrækt starfsskyldur sínar. Þá hefur handtökuskipun verið gefin út á þriðja manninn, Celiu Castdedo sem einnig var starfsmaður flugmálayfirvalda. Celia er sögð hafa séð áætlun vélarinnar áður en hún tók á loft frá Santa Cruz. Var hún vöruð við því að eldsneytisstaða vélarinnar væri tæp. Vélin var á leið til Kólumbíu.

Celia segist hafa verið beitt þrýstingi af yfirmönnum sínum um að breyta skýrslu sem hún gaf vegna flugsins. Hún segist óttast að vera gerð að blóraböggli og hefur flúið land. Hún hefur sótt um hæli í Brasilíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert