Vilja framlengja neyðarlögin til 15. júlí

Bernard Cazeneuve ræddi við blaðamenn í dag.
Bernard Cazeneuve ræddi við blaðamenn í dag. AFP

Stefnt er að því að hafa frönsku neyðarlögin í gildi til að minnsta kosti til 15. júlí, fram yfir kosningar í landinu. Er það mat stjórnvalda að auknar líkur séu á hryðjuverkaárásum í landinu á meðan kosningar og kosningabarátta standa yfir. 

Ríkisstjórn Frakklands greindi frá þessu í dag en lögin hafa verið í gildi síðan 130 manns létu lífið í hryðjuverkaárásum í París í nóvember 2015. Lögin verða rædd á franska þinginu á þriðjudaginn og búist er við að framlenging fram í júlí verði samþykkt á fimmtudaginn.

„Þessi kosningabarátta, sem eðlilega inniheldur marga fjöldafundi og samkomur, ýtir því miður undir auknar líkur á árásum,“ sagði nýr forsætisráðherra Frakklands, Bernard Cazeneuve, í dag.

Þetta yrði þá í fimmta skiptið sem lögin eru framlengd en þau veita lögreglu aukið vald þegar það kemur að handtökum og leitarheimildum.

Forsetakosningar fara fram í Frakklandi í apríl og maí og þingkosningar í júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert