Vilja rannsókn á 35 ára fjöldamorði

Ættingjar þeirra sem voru myrtir í fjöldamorðinu árið 1981 voru …
Ættingjar þeirra sem voru myrtir í fjöldamorðinu árið 1981 voru viðstaddir um helgina er líkamsleifar fórnarlambanna voru jarðsettar. AFP

Þrátt fyrir að meira en tveir áratugir séu liðnir síðan borgarastyrjöldinni í El Salvador lauk eru enn margir sem segja að réttlætinu hafi ekki verið fullnægt vegna hinna hroðalegu fjöldamorða sem framin voru. Þeir atburðir eru jafnferskir í hugum margra og moldin sem nú hefur verið mokað ofan á líkamsleifar nokkurra fórnarlambanna sem fengið hafa nýjan hvílustað.

„Réttlætið er það eina sem getur létt af þjáningum okkar vegna þeirra sem létust,“ segir Dorila Marquez sem fylgist með jarðsetningu líkamsleifanna í þorpinu El Mozote í norðausturhluta landsins.

Það var á þeim stað, dagana 10.-13. desember árið 1981, sem hermenn tóku þúsund óbreytta borgara, menn, konur og börn, af lífi. Fólkið var grunað um að tengjast skæruliðasamtökunum sem herinn barðist við í borgarastyrjöldinni.

Líkamsleifar voru grafnar upp úr fjöldagröfum í fyrra og kennsl borin á þær. Nú um helgina var loks hægt að grafa þær aftur. Í þetta sinn fær hvert fórnarlamb sína kistu og sína gröf.

Argentínskir réttarmeinafræðingar hófu árið 1992 leit að líkunum til að bera kennsl á þau. Í nóvember á þessu ári tókst þeim til dæmis að finna líkamsleifar 40-45 manna. 

„Þetta eru sárar minningar,“ segir Marquez. „En við verðum að öðlast styrk til að gæta þess að sagan um þessi hroðalegu fjöldamorð glatist ekki.“

Marquez er orðin sextug. Tíu úr fjölskyldu hennar voru myrtir í fjöldamorðinu, m.a. foreldrar hennar, systir og mágur. Í dag fer hún fyrir mannréttindasamtökum í þorpinu sem þrýsta á að morðin verði rannsökuð. 

Hún segir það stjórnarskrárbundinn rétt ættingjanna að málið verið rannsakað og réttlætinu fullnægt. Engu skipti þó að 35 ár séu liðin frá fjöldamorðinu.

Líkamsleifar fórnarlambanna voru settar í litlar kistur sem nú hafa …
Líkamsleifar fórnarlambanna voru settar í litlar kistur sem nú hafa fengið sína gröfina hver. AFP

Þegar borgarastríðinu í El Salvador, sem stóð á árunum 1980-1992, lauk sögðu Sameinuðu þjóðirnar að 70 þúsund manns hefðu látist í því. Sagði stofnunin að stjórnarherinn, sem naut stuðnings Bandaríkjanna, bæri ábyrgð á flestum dauðsföllunum.

Skæruliðasamtökin FMLN voru einnig sögð hafa brotið á mannréttindum fólks. Þau þróuðust í kjölfar stríðsins í það að verða stjórnmálaafl í landinu og unnu m.a. forsetakosningarnar árið 2009. Í kjölfarið baðst ríkisstjórn landsins afsökunar á fjöldamorðinu.

En fjölskyldum fórnarlambanna finnst ekki nóg hafa verið að gert. 

„Við viljum segja umheiminum að þó að 35 ári hafi liðið munum við enn eftir ættingjum okkar sem létust,“ segir Vidal Perez, ekkill Rifinu Amaya sem var sú eina sem lifði árásina af. Tvö börn hennar voru drepin. Amaya lést árið 2007.

Þeir sem taldir eru bera mesta ábyrgð á fjöldamorðinu, hershöfðingjarnir Domingo Monterrosa og Armando Azmitia, verða aldrei sóttir til saka þar sem þeir eru báðir látnir. En fleiri voru ábyrgir. Í sumar komst hæstiréttur landsins að því að friðhelgi sem þeir nutu, vegna þeirra aðstæðna sem voru uppi í landinu á þessum tíma, standist ekki stjórnarskrá. 

Í september samþykkti svo dómari að taka mætti fyrir dómsmál gegn hershöfðingjum sem enn eru á lífi. 

„Fyrr en síðar verður réttlætinu fullnægt,“ segir Mauricio.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert