33 létust er bílar urðu alelda

Eldurinn læsti sig í nálæg ökutæki og fólkið brann inni …
Eldurinn læsti sig í nálæg ökutæki og fólkið brann inni í þeim. AFP

Meira en þrjátíu manns létust er bíll er flutti eldfim efni lenti í árekstri og sprakk utan við bæinn Naivasha í Kenía í gærkvöldi. 33 eru látnir en talið er að sú tala eigi enn eftir að hækka. Að minnsta kosti ellefu ökutæki urðu alelda við áreksturinn.

Talsmaður Rauða krossins í Kenía segir að ökumaður flutningabílsins hafi misst stjórn á honum á veginum og af þeim sökum lent í árekstri við önnur farartæki. Hann hafi svo orðið alelda og sömuleiðis nálægir bílar. Lítil rúta og lögreglubíll voru meðal þeirra sem flutningabíllinn lenti í árekstri við.

Slysið varð á fjölförnum þjóðvegi sem liggur milli höfuðborgarinnar Nairóbí og Nakuru. Lögreglan segir að flutningabíllinn hafi verið með úgandskar skráningarplötur en þjóðvegurinn liggur einmitt að landamærum Úganda. 

Lögreglan segir að ökumaðurinn hafi misst stjórn á bílnum eftir að hafa farið yfir hraðahindrun í brekku á miklum hraða. 

Að minnsta kosti fimmtíu voru fluttir slasaðir á sjúkrahús.

Sjónarvottar segja að eldhnöttur hafi myndast við áreksturinn og hann læst sig í nálæg ökutæki sem sum voru full af fólki. Í kjölfarið fór lögreglan á milli bílhræjanna og tíndi út úr þeim líkin.

Fjölmörg slys verða á hverju ári á þessum þjóðvegi. Hann er eins og margir vegir í landinu illa upplýstur og á honum má finna margar hraðahindranir. Miklir vöruflutningar, m.a. á eldsneyti, fara fram um veginn og valda mikilli slysahættu.

Rauði krossinn vinnur að því að flytja líkin af vettvangi …
Rauði krossinn vinnur að því að flytja líkin af vettvangi slyssins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert