Ákafar loftárásir hröktu vígamenn burt

Vígamenn Ríkis íslams eyðilögðu fornminjar í Palmyra síðast þegar þeir …
Vígamenn Ríkis íslams eyðilögðu fornminjar í Palmyra síðast þegar þeir réðu þar ríkjum. AFP

Vígamenn Ríkis íslams hafa verið hraktir frá miðborg Palmyra, hinnar fornu sýrlensku borgar. Þangað ruddust þeir í gær en níu mánuðir eru síðan þeir fóru með völdin í borginni. 

Í frétt BBC segir að Rússar hafi gert loftárásir á borgina til að koma vígamönnunum þaðan. Þeir hafa þó ekki yfirgefið Palmyra en halda sig nú í úthverfum hennar. Sýrlenski herinn sendi einnig liðsstyrk til borgarinnar í gær. 

Ríki íslams hafði yfirráðin í borginni í tíu mánuði frá því í maí í fyrra. Á þeim tíma eyðilögðu þeir margar fornar minjar sem eru á heimsminjaskrá UNESCO, m.a. hof. 

Mannúðarsamtökin Syrian Observatory for Human Rights segja að með „áköfum“ loftárásum Rússa hafi vígamennirnir flúið til úthverfanna. Þar er enn barist.

Stjórnarher Sýrlands, með stuðningi Rússa og fleiri ríkja, hefur síðustu daga smám saman verið að ná völdum í borginni Aleppo. Uppreisnarmenn hafa ráðið ríkjum í austurhluta borgarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert