Gentiloni nýr forsætisráðherra

Paolo Gentiloni er orðinn forsætisráðherra Ítalíu.
Paolo Gentiloni er orðinn forsætisráðherra Ítalíu. AFP

Paolo Gentiloni var í dag útnefndur forsætisráðherra Ítalíu eftir að Matteo Renzi sagði af sér í kjölfar niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnskipan landsins. Breyt­ing­un­um, sem Renzi barðist fyr­ir, var hafnað.

Gentiloni var utanríkisráðherra í stjórn Renzis. Forseti landsins, Sergio Mattarella, hefur beðið Gentiloni að mynda nýja ríkisstjórn sem mun starfa þar til kosið verður í febrúar árið 2018.

Gentiloni er 62 ára og náinn stuðningsmaður Renzis. Hann er því talinn líklegur til að styðja endurkomu Renzis í stjórnmálin á þarnæsta ári.

Mattarella hét því í gær að finna hratt og vel eftirmann Renzis. Hann sagði nauðsynlegt að mynda nýja ríkisstjórn sem fyrst til að takast á við erfið verkefni sem fram undan eru í landinu. Bankakreppa vofir yfir og enn er mikið uppbyggingarstarf fyrir höndum eftir tvo mannskæða jarðskjálfta í ágúst og október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert