Stjórnvöld benda á skæruliða Kúrda

Tyrknesk stjórnvöld segja nú allar líkur á því að skæruliðar Kúrda beri ábyrgð á tvöfaldri sprengjuárás við íþróttaleikvang í Istanbúl í gærkvöldi. Er talið að árásinni hafi verið beint að lögreglu en að minnsta kosti 38 létu lífið.

Fyrri frétt mbl.is: 38 látnir - 166 særðir

Numan Kurtulmus aðstoðarforsætisráðherra sagði í dag að grunnrannsókn bendi til þess að PKK, Verka­manna­flokkur Kúrda, bæri ábyrgð en hann hefur áður ráðist gegn öryggissveitum í landinu.

Sprengj­urn­ar sprungu tveim­ur klukku­stund­um eft­ir leik tveggja helstu knatt­spyrnuliða borg­ar­inn­ar, Besiktas og Bursa­spor, á heima­velli þess fyrr­nefnda. 

Eins og fyrr segir voru sprengjurnar tvær, bílasprengja og þá sprengdi árásarmaður sig í loft upp. Numan sagði í samtali við fréttastöðina CNN Turk að um 300-400 kíló af sprengiefni hafi verið notað í árásinni.

„Allar vísbendingar benda til PKK,“ sagði hann en enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni.

Fjölmargar árásir hafa verið gerðar í Tyrklandi á árinu, þar sem gerendurnir eru bæði PKK og Ríki íslams. Tyrkir taka þátt í hernaðaraðgerðum gegn Ríki íslams og eru hersveitir þeirra starfandi bæði í Írak og Sýrlandi. Þá hafa tyrknesk stjórnvöld lengi átt í deilum við PKK í Suðaustur-Tyrklandi.

Að sögn innanríkisráðherra Tyrklands, Suleyman Soylu, hafa þrettán verið handteknir í tengslum við málið.

30 þeirra sem létu lífið voru lögreglumenn. Tugir manna eru á sjúkrahúsi, sumir á gjörgæslu.

Þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í Tyrklandi. Forseti landsins Recep Tayyip Erdogan sagði sprengingarnar hannaðar til þess að „hámarka dauða“ fórnarlamba. Hins vegar hefur verið bent á að þar sem að sprengingarnar sprungu tveimur tímum eftir að leiknum lauk voru flestir áhorfendur farnir af leikvanginum. Bursapor sagðist á Twitter ekki vita til þess að einhverjir stuðningsmenn liðsins hefðu særst í árásinni.

Tyrkneskir lögreglumenn standa heiðursvörð við kistur samstarfsfélaga sinna við lögreglustöðina …
Tyrkneskir lögreglumenn standa heiðursvörð við kistur samstarfsfélaga sinna við lögreglustöðina í Istanbúl í morgun. AFP
Þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í Tyrklandi.
Þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í Tyrklandi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert