Dæmd til dauða fyrir að kveikja í dóttur sinni

Íbúar í Lahore kaupa fisk á markaði. Töluvert er um …
Íbúar í Lahore kaupa fisk á markaði. Töluvert er um ofbeldi gegn konum í Pakistan og voru rúmlega 1100 heiðursmorð framin í landinu 2015. AFP

Pakistanskur dómstóll dæmdi í dag konu til dauða fyrir að hafa brennt dóttur sína lifandi í refsingarskyni fyrir að stúlkan gifti sig án samþykkis fjölskyldunnar.

Konan, Parveen Bibi, játaði fyrir dómstól í borginni Lahore að hún hefði myrt dóttur sína, sem hún sagði hafa „valdið fjölskyldunni skömm.“

Reuters-fréttastofan hefur eftir pakistönsku lögreglunni að hin 18 ára gamla Zeenat Rafiq hafi gifst Hassan Khan og að hún hafi í kjölfarið flutt inn til fjölskyldu hans viku áður en hún var myrt.

Dómstóllinn dæmdi bróður Rafiq í lífstíðarfangelsi eftir að sönnunargögn sýndu að hann og móðir hennar höfðu barið hana, áður en móðir hennar skvetti yfir hana eldfimum vökva og kveikti í henni.

Töluvert er um ofbeldi gegn konum í Pakistan samkvæmt mannréttindasamtökum í landinu. Samkvæmt fjölmiðlaskýrslu samtakanna voru rúmlega 1100 heiðursmorð framin árið 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert