Þeim fjölgar sem sniðganga innsetningu Trump

Þingmaðurinn John Lewis og forsetinn tilvonandi Donald Trump. Lewis sagði …
Þingmaðurinn John Lewis og forsetinn tilvonandi Donald Trump. Lewis sagði Trump ekki réttkjörinn forseta og Trump sagði Lewis ekki gera neitt nema tala. AFP

Þeim þingmönnum Demókrataflokksins fer fjölgandi sem ætla að sniðganga innsetningarathöfn Donald Trump í embætti Bandaríkjaforseta næsta föstudag. 26 þingmenn demókrata segjast nú ekki munu mæta og margir þeirra segja ástæðuna vera nýlegar árásir forsetans tilvonandi á mannréttindafrömuðinn og þingmanninn John Lewis.

Trump hellti sér yfir Lewis á Twitter síðasta föstudag eftir að Lewis sagði hann ekki vera „réttkjörinn forseta“ í viðtali við NBC-sjónvarpsstöðina, er hann tilkynnti að hann muni sniðganga athöfnina. Trump sagði á móti að Lewis gerði ekkert nema tala. Hann kæmi engu í verk og útkoman væri í samræmi við það.

Lewis var áberandi í mannréttindabaráttu svartra og er hetja í augum margra Bandaríkjamanna.

„Þegar þú móðgar John Lewis þá móðgarðu Bandaríkin,“ hefur fréttavefur BBC eftir Yvette Clarke, einum þingmannanna sem hefur tilkynnt að hún muni ekki mæta.

Illinois-þingmaðurinn Luis Gutierrez var fyrstur þingmanna til að ríða á vaðið, en hann tilkynnti strax í desember að hann muni ekki mæta. „Ég gæti ekki horfst í augu við konu mína, dætur eða barnabarn ef ég sæti þarna og tæki þátt. Rétt eins og ekkert af því sem hann sagði um konur, suður-ameríska, svarta, múslima eða alla hina hlutina sem hann lét frá sér í ræðum og Twitter-skilaboðum, eins og allt sé í lagi og hafi nú verið þurrkað út úr sameiginlegu minni okkar,“ sagði Gutierrez þegar hann tilkynnti þingheimi um ákvörðun sína.

Trump hefur gengið illa að fá þekkta tónlistarmenn til að koma fram við innsetningarathöfn sína, en meðal þeirra sem koma munu fram eru Jackie Evancho, 16 ára þátttakandi í America's Got Talent-keppninni, Rockett-dansflokkurinn, þótt ekki hafi allir dansararnir samþykkt að koma fram, og hljómsveitir á vegum hersins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert