McDonalds fæðir heimilislausa í Róm

Það vakti litla hrifningu hjá mörgum þegar McDonalds opnaði skyndibitastað …
Það vakti litla hrifningu hjá mörgum þegar McDonalds opnaði skyndibitastað í næsta nágrenni við Vatíkanið. Staðurinn gefur nú heimilislausum máltíðir. AFP

Það vakti litla hrifningu hjá mörgum þegar McDonalds-skyndibitakeðjan opnaði veitingastað í næsta nágrenni við Péturstorgið í Róm í lok síðasta mánaðar. Skyndibitakeðjan virðist þó reiðubúin að taka upp eitt þeirra mála sem eru Frans páfa kær – að fæða þá sem eru hungraðir.

Það olli nokkurri úlfúð þegar McDonalds opnaði stað í byggingu sem er í eigu Vatíkansins og lýstu nokkrir kardínálar yfir þeirri skoðun að Vatíkanið hefði frekar átt að gera húsið að skýli fyrir heimilislausa.

Frans páfi hefur lagt mikla áherslu á að verja þá sem minna mega sín, en páfi hefur m.a. komið upp sturtuaðstöðu fyrir heimilislausa í nágrenni Vatíkansins, auk þess að bjóða upp á máltíðir og jafnvel heimsóknir í Sixtínsku kapelluna.

Nýi skyndibitastaðurinn færði hjálparsamtökum í dag máltíðir fyrir heimilislausa í borginni. Pierfrancesco Spiga, sem hefur verið heimilislaus eftir að hann missti vinnuna sem garðyrkjumaður, var einn þeirra sem kom í dag til að sækja sér ostborgara, epli og vatn. Hann sagði fleiri fyrirtæki mega taka sér McDonalds til fyrirmyndar.

„Það væri gott ef þessi alþjóðafyrirtæki gæfu mat í lok hvers dags til þeirra sem eiga ekkert í stað þess að henda honum,“ sagði Spiga í samtali við Reuters-fréttastofuna.

McDonald's hefur ekki tjáð sig um matargjafirnar, utan að segja að 1.000 máltíðum verði dreift í gegnum Medicina Solidale-góðgerðarsamtökin á næstu sex mánuðum.

Samstarfið kom til eftir að formaður Medicina Solidale skrifaði McDonalds í kjölfar deilunnar um nýja veitingastaðinn. „Þeir brugðust við með því að gefa okkur þetta tækifæri til að hjálpa,“ sagði Fotini Iordanoglou, talsmaður samtakanna. „Við munum ekki leysa hungurvandann, en við erum að reyna að gefa smá bita til þeirra sem þurfa á honum að halda.“

Samtökin vonast til að geta dreift 100 máltíðum á viku og ætla að kanna hvort hægt sé að gera fyrirkomulagið varanlegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert