Sagðist vera ástfangin af 13 ára nemanda sínum

Að sögn saksóknara stunduðu Vera og drengurinn kynlíf næstum því …
Að sögn saksóknara stunduðu Vera og drengurinn kynlíf næstum því daglega í níu mánuði. Hún sagði rannsakendum að þau væru ástfangin en á meðan sambandinu stóð sagði hún nágrönnum sínum að nemandinn væri bróðir sinn.

Fyrrverandi kennslukona í Texas í Bandaríkjunum hefur verið dæmd í tíu ára fangelsi fyrir að eiga í kynferðislegu sambandi við nemanda sinn. Konan varð þunguð eftir nemandann sem er þrettán ára gamall drengur.

Frétt Washington Post. 

Í samtali við lögreglu viðurkenndi kennarinn, sem heitir Alexandria Vera og er 25 ára gömul, að sambandið hafi byrjað í gegnum samfélagsmiðilinn Instagram og hafi þróast yfir í ástarsamband. Þá sagði Vera að fjölskylda drengsins hafi vitað af sambandinu og ekki verið á móti því.

Vera var eins og fyrr segir dæmd í tíu ára fangelsi í Houston á föstudaginn. Við úrskurðinn sagðist dómari í málinu ekki trúa því að Vera, sem var áður enskukennari, væri ógn gagnvart börnum eða „klassískur barnaníðingur“. Sagðist hann þó vilja senda út ákveðin skilaboð með dómnum. „Við viljum að kennarar kenni nemendum sínum,“ sagði dómarinn Michael McSpadden í samtali við Houston Chronicle.

Vera var handtekin í júní og ákærð. Hún sagðist hafa hitt drenginn í sumarskóla árið 2015 en hafa hunsað viðreynslu hans þar til um haustið þegar hún samþykkti að hitta drenginn. Að sögn saksóknara stunduðu Vera og drengurinn kynlíf næstum því daglega í níu mánuði. Hún sagði rannsakendum að þau væru ástfangin en á meðan sambandinu stóð sagði hún nágrönnum sínum að nemandinn væri bróðir sinn.

Þá er Vera sökuð um að hafa flutt drenginn og föður hans heim til sín og þóst vera í ástarsambandi við föðurinn. Þá keypti hún matvörur handa fjölskyldu drengsins og greiddi símreikninga.

Sex ára dóttir Veru vissi af sambandinu og að sögn saksóknara kallaði hún drenginn „pabba“. Vera sagði lögreglu að hún hefði orðið þunguð eftir drenginn og farið í fóstureyðingu.

Við réttarhöldin bar sálfræðingurinn Karen Lawson vitni sem sagði að Vera hafi alist upp í kringum heimilisofbeldi. Lýsti hún Veru sem „einhverjum með stórt hjarta“ sem þyrfti að vera elskuð.

Rannsókn málsins hófst eftir að skólastjóra skólans sem Vera kenndi við fékk ábendingu um málið snemma árs 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert