Varpaði sprengju á flóttamannabúðir fyrir mistök

Samtökin Læknar án landamæra birtu í dag mynd af barni, …
Samtökin Læknar án landamæra birtu í dag mynd af barni, sem var í hópi þeirra sem særðust í árásinni á flóttamannabúðirnar. Um 100 manns fórust í árásinni. AFP

Nígerísk herflugvél varpaði fyrir mistök sprengju á flóttamannabúðir í norðausturhluta landsins. Um hundrað manns fórust í árásinni og tugir eru slasaðir, þar á meðal sex starfsmenn Rauða krossins.

Hjálparsamtökin Læknar án landamæra (MSF) sögðu starfsfólk sitt nú sinna um 120 manns sem særðust í árásinni og að verið væri að aðstoða við brottflutning særðra úr búðunum.

Muhammadu Buhari, forseti Nígeríu, sagðist harma árásina en hvatti fólk til að sýna stillingu. Nígeríski stjórnarherinn á í átökum við liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Boko Haram. Árásin átti sér stað nálægt landamærum Kamerún þar sem herinn hefur staðið fyrir aðgerðum, sem hann segir lokahnykkinn í baráttunni við samtökin.

Fréttavefur BBC segir þetta væntanlega í fyrsta skipti sem nígeríski herinn játar slík mistök.

„Þessi umfangsmikla árás á varnarlausa einstaklinga sem hafa þegar flúið hrottalegt ofbeldi er hræðileg og óásættanleg,“ sagði dr. Jean-Clement Cabrol, aðgerðastjóri MSF.

„Það verður að virða öryggi almennra borgara. Við hvetjum deiluaðila til að heimila sjúkraflutninga úr lofti og á láði fyrir þá sem þurfa á læknisaðstoð að halda.“

Talið er að margir hinna særðu séu í hópi þeirra sem þegar höfðu flúið árásir Boko Haram.

Jason Straziuso, talsmaður Rauða krossins, sagði í viðtali við AP-fréttastofuna að þeir starfsmenn Rauða krossins sem fórust í árásinni hafi verið hluti af teymi sem var að flytja matvæli í flóttamannabúðirnar.

Lucky Irabor, talsmaður nígeríska hersins, sagði flugmann vélarinnar hafa ranglega talið sig vera að gera árás á uppreisnarmenn. En farið hefði verið í leiðangurinn eftir að fréttir bárust af hópi uppreisnarmanna Boko Haram á þessum slóðum.

Sagði Irabor herinn ekki viljandi gera árás á almenna borgara og að málið verði rannsakað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert