Gekk út með skartgripi metna 1,8 milljarða króna

Lögreglan fyrir utan skartgripaverslun Harry Winston við Croisette.
Lögreglan fyrir utan skartgripaverslun Harry Winston við Croisette. AFP

Þjófur, sem þóttist vera viðskiptavinur, stal skartgripum sem metnir eru á 15 milljónir evra, sem svarar til 1,8 milljarða króna, í skartgripaverslun í Cannes í gær.

Að sögn frönsku lögreglunnar er þjófurinn talinn vera á fertugsaldri en hann kom inn í skartgripaverslun Harry Winston í gær og gekk út með skargripina skömmu síðar. Maðurinn, sem var með sólgleraugu, var álitinn viðskiptavinur af starfsfólki þangað til hann dró upp skammbyssu og eitthvað sem líktist handbyssu. Á öryggismyndavélum sést þjófurinn síðan ganga í rólegheitum frá versluninni án þess að hafa hleypt af skoti eða sært nokkurn í versluninni. 

Borgarstjórinn í Cannes, David Lisnard, segir að ekkert hafi verið hægt að gera til þess að komast hjá ráninu og biðlar til stjórnvalda í Frakklandi að heimila notkun augnskanna og fingrafarahugbúnaðar til að koma í veg fyrir glæpi sem þessa.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert