„Nú getum við loksins farið að byggja“

Verkamenn við húsbyggingu í landtökubyggðum í austurhluta Jerúsalem. Stjórnvöld heimiluðu …
Verkamenn við húsbyggingu í landtökubyggðum í austurhluta Jerúsalem. Stjórnvöld heimiluðu í dag byggingu 566 nýrra heimila í landtökubyggðunum þvert á ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. AFP

Ísraelsk stjórnvöld samþykktu í dag byggingu hundraða nýrra heimila í landtökubyggðunum í austurhluta Jerúsalem, eftir að Donald Trump tók við embætti Bandaríkjaforseta.

„Núna getum loksins farið að byggja,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Meir Turgeman, aðstoðarborgastjóra í Jerúsalem.

Fréttavefur BBC segir forsætisráðherra Ísraels hafa beðið með að veita byggingaleyfið vegna andstöðu Baracks Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Það vakti mikla reiði meðal Ísraela í lok síðasta árs er fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum beitti ekki neitunarvaldi gegn því að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fordæmdi byggingu landtökubyggða á Vesturbakkanum.

Frétt mbl.is: Ísrael beiti ríkin eigin refsiaðgerðum

Byggðir Ísraela í austurhluta Jerúsalem eru ólöglegar samkvæmt alþjóðalögum, þótt Ísraelar dragi þá löggjöf í efa.

Við upphaf ríkisráðsfundar á sunnudag sagði Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, að hann myndi ræða við Trump í kvöld.

Það eru mörg málefni, meðal annars Ísrael-Palestínu-deilan, ástandið í Sýrlandi og ógnin frá Íran,“ sagði Netanyahu.

Leikreglurnar hafa breyst eftir að Trump tók við 

Borgarstjórn Jerúsalem heimilaði í dag byggingu 566 nýrra heimila í landtökubyggðunum Pisgat Zeev, Ramat Shlomo og Ramot í austurhluta Jerúsalem.

„Mér var sagt að bíða þar til Trump tæki við embætti af því að hann hefur ekkert á móti uppbyggingu í Jerúsalem,“ sagði Turgeman.

„Leikreglurnar hafa breyst eftir að Donald Trump tók við sem forseti. Hendur okkar eru ekki lengur bundnar eins og var á tímum Obama.“

Turgeman sagði að veitingu byggingaleyfa hefði verið frestað að beiðni forsætisráðherrans, í kjölfar ályktunar Öryggisráðsins um hinar umdeildu landtökubyggðir þar sem yfir hálf milljón gyðinga býr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert