Hafði varað yfirvöld við ástandinu

Hótelstjóri ítalska hótelsins sem varð fyrir snjóflóðinu á miðvikudag, þar sem að minnsta kosti sex létust, hafði áður látið yfirvöld vita af áhyggjum gesta sinna vegna tíðra jarðskjálfta og mikillar snjókomu á svæðinu.

Tölvupóstur sem hótelstjórinn, Bruno Di Tommaso, sendi yfirvöldum í Pescara-héraði að morgni miðvikudagsins, hefur verið birtur í ítölskum fjölmiðlum í dag. Leit stendur yfir að þeim 23 sem enn eru týndir eftir snjóflóðið. Níu hafa fundist á lífi.

Bjuggu sig undir nótt í bílum sínum

Í tölvupóstinum varar hann yfirvöld í héraðinu, bæjarstjórann í bænum Farindola og lögreglustjóra svæðisins, við því að aðstæður séu uggvænlegar.

Bað hann þá um að búa sig undir að skerast í leikinn. Gestirnir væru skelfingu lostnir vegna jarðskjálftanna og hefðu ákveðið að vera utandyra, en allir voru þeir veðurtepptir.

„Við höfum reynt að róa þá, en þeir geta ekki farið vegna þess að vegirnir eru ófærir og þeir búa sig undir að gista í bílum sínum,“ segir í tölvupóstinum.

Um tíu klukkustundum síðar, eða klukkan 17 að staðartíma, skall snjóflóðið á hótelinu. Talið er að það hafi vegið um 120 þúsund tonn, og lent á hótelinu á um hundrað kílómetra hraða á klukkustund.

Frétt mbl.is: Engin merki um lífsmark

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert