Kynlífsleikföng skaðlausari en barnaleikföng

Kynlífstól ýmiss konar voru til rannsóknar.
Kynlífstól ýmiss konar voru til rannsóknar. AFP

Kynlífsleikföng eru ólíklegri til að innihalda hættuleg efni en þau leikföng sem ætluð eru börnum. Þetta er niðurstaða rannsóknar sænskrar eftirlitsstofnunar sem gerð var opinber í dag.

Árið 2015 fann stofnunin hættuleg efni, þar á meðal blý, í 15% barnaleikfanga í Svíþjóð. Hlutfall kannaðra kynlífsleikfanga sem innihéldu bannfærð efni var á sama tíma 2%.

„Þetta kom svolítið á óvart,“ segir Frida Ramström, rannsakandi hjá stofnuninni, í samtali við fréttastofu AFP. Þetta var í fyrsta sinn sem stofnunin gerir slíka rannsókn.

Af 44 kynlífsleikföngum var einn gervilimur sem innihélt klórblönduð parafín, sem talið er að geti valdið krabbameini.

Flutt inn frá Asíu

Ramström segir öryggi kynlífsleikfanganna líklega eiga rætur að rekja til strangra reglugerða Evrópusambandsins.

„Þessi leikföng eru notuð nær líkamanum og því eðlilegt að nota betri efni.“

Erfitt muni vera að greina af hverju barnaleikföng eru líklegri til að innihalda hættuleg efni. 

Mörg þeirra séu þó flutt inn frá Asíu, sem torveldar hertar kröfur um öryggi leikfanganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert