Reyndu að taka líf heillar fjölskyldu

140 þúsund manns eru með berkla í Búrma.
140 þúsund manns eru með berkla í Búrma. AFP

Eins árs gömul stúlka lést og bræður hennar, sjö og níu ára, eru þungt haldnir á sjúkrahúsi eftir að foreldrar þeirra reyndu að taka líf allrar fjölskyldunnar. Foreldrarnir, sem eru báðir með berkla, fengu nýlega þær fregnir að þeir hefðu myndað með sér ónæmi fyrir lyfjum sem gefin eru berklasjúkum í heimalandi þeirra, Búrma. 

Berklar eru mjög útbreiddir í Búrma og eru 140 þúsund landsmenn greindir með berkla í landinu, samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO). Á hverju ári greinast níu þúsund þar í landi með lyfjaónæma berkla. Áætlanir stjórnvalda miða að því að fækka dauðsföllum af völdum berkla um 95% og fækka nýju smiti um 90% fyrir árið 2035.

Foreldrarnir, sem eru frá litlu þorpi fyrir utan borgina Mandlay, neyddu börn sín til þess að drekka meindýraeitur og réðust síðan á þau með hnífum áður en þau reyndu að fremja sjálfsvíg á laugardag.

Litla stúlkan lést á staðnum en drengirnir eru ásamt foreldrum sínum á sjúkrahúsi. Foreldrarnir, sem eru örsnauðir, hafa verið lengi með berkla og fylltust örvæntingu þegar þeim var tjáð að þau væru með lyfjaþolna berklasýkla. Berklar eru smitsjúkdómur og enginn vill vinna með berklasjúkum, segir embættismaður sem AFP-fréttastofan ræddi við í Búrma í dag.

Þau hafi verið sannfærð um að þeirra biði bara dauðinn þar sem engin lækning væri í boði. Við það hafi þau sturlast og reynt að deyða börn sín og fremja sjálfsvíg.

Á Vísindavef Háskóla Íslands kemur fram að berklar berist manna á milli um öndunarfæri. Meinvaldurinn er „baktería“ (sýkill). Sýklarnir komast inn í líkamann við öndun en berast frá öndunarfærum um líkamann með blóðrás. Berklasýklar geta hreiðrað um sig á ýmsum stöðum í líkamanum, svo sem nýrum, beinum eða miðtaugakerfi. Algengast er þó að þeir valdi sjúkdómi í lungum. Þangað berast þeir fyrst og þar eru vaxtarskilyrði góð, einkum í lungnatoppunum.

Berklasjúklingar smita ekki allir. Það er einkum sú tegund berklasjúkdóms sem einkennist af holumyndun í lungum og þar sem sýklarnir sjást við smásjárskoðun á hráka, sem er smitandi. Það smitast ekki allir sem umgangast berklasjúklinga og það veikjast ekki allir sem smitast af berklum. Það er hægt að vera smitaður alla ævina án þess að sjúkdómurinn komi fram.

Meðferð við berklum er fjöllyfjameðferð. Í dag er yfirleitt beitt sex mánaða meðferð þar sem gefin eru fjögur lyf fyrstu tvo mánuðina og svo tvö lyf í fjóra mánuði. Ef ekki er um lyfjaþolna sýkla að ræða, lagt er upp með rétta meðferð í upphafi og sjúklingurinn tekur lyfin eins og fyrir hann er lagt, er árangur meðferðar mjög góður.

Það er einkum tvennt sem er til vandræða hvað varðar berkla á okkar tímum. Annars vegar alnæmi, sem er algengt í löndum þar sem berklar eru landlægir í dag, og hins vegar lyfjaþolnir sýklar. Alnæmissmit eykur líkur að minnsta kosti hundraðfalt á að berklasmitaður einstaklingur fái berklasjúkdóm. Heilbrigt ónæmiskerfi heldur smiti í skefjum en þegar ónæmiskerfið bilar ná sýklarnir yfirhöndinni.

Lyfjaþolnir sýklar eru vaxandi ógn á heimsvísu. Ekki hafa komið fram ný berklalyf um nokkurt skeið og meðferðarhorfur eru mun lakari ef um lyfjaþolna berklasýkla er að ræða. Auk þess er meðferðin margfalt dýrari. Til að koma í veg fyrir myndun lyfjaþols hjá sýklum, er mikilvægt að læknar og sjúklingar virði ákveðnar reglur varðandi notkun á berklalyfjum.

Áætlað er að 1,8 milljónir manna hafi dáið úr berklum árið 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert