Sporvagni stolið í Vín

Sporvagn í Vínarborg.
Sporvagn í Vínarborg. Wikipedia

Sporvagni var stolið í Vín, höfuðborg Austurríkis, á laugardaginn. Vagnstjórinn hafði stöðvað vagninn stuttlega á Rodaun-stoppistöðinni til þess að fara á salernið og læst honum á meðan en þegar hann sneri til baka var vagninn á bak og burt.

Fram kemur á fréttavefnum Thelocal.at að engir farþegar hafi verið í sporvagninum þegar hann hvarf. Fyrirtækið sem rekur sporvagnakerfi Vínarborgar, Wiener Linien, brást skjótt við eftir að vagnstjórinn tilkynnti þjófnaðinn og sló út rafmagni á svæðinu þar sem talið var líklegt að vagninn væri á ferð.

Þegar sporvagninn fannst var sá sem tók hann ófrjálsri hendi horfinn. Þjófsins er nú leitað. Ekki hafa fundist vitni í málinu en lögreglan er að skoða upptökur eftirlitsmyndavéla. Þjófurinn virðist hafa fylgt öllum umferðarreglum en engar tilkynningar hafa borist um brot á þeim.

Haft er eftir talsmanni Wiener-Linien, Michael Unger, að fátítt sé að slíkt gerist. Ekki sé auðvelt að aka sporvagni án þess að hafa til þess kunnáttu. Þá þurfi sérstakan lykil til þess að ræsa sporvagna. Vagnstjórinn hafi ekki skilið lykilinn sinn eftir í vagninum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert