Sýndu hópnauðgun beint á Facebook

AFP

Grunur leikur á að ungri konu hafi verið nauðgað af þremur mönnum í íbúð í Uppsala í Svíþjóð í gærmorgun og níðingarnir sýnt ofbeldið í beinni útsendingu á Facebook.

Aftonbladet fjallar um málið í dag en lögregla segir að þeir sem hafi myndskeiðið undir höndum og dreifi myndskeiðinu fremji saknæmt athæfi.

Lögreglunni í Uppsala barst ábending um að nauðgun ætti sér stað í íbúðinni. Nokkrir höfðu samband við lögreglu eftir að hafa séð beina útsendingu frá nauðguninni. Á fyrsta myndskeiðinu má sjá þrjá menn beita konuna kynferðislegu ofbeldi en á því síðara má sjá lögreglu koma inn í íbúðina og slökkva á myndavélinni.

Ofbeldismennirnir eru í kringum tvítugt, einn er fæddur árið 1992, annar árið 1996 og sá þriðji er fæddur 1998. Þeir voru handteknir í íbúðinni og verða ákærðir fyrir gróft ofbeldi. Þeir eru allir í gæsluvarðhaldi. Konan er þrítug að aldri.

Fólk hefur haft samband við Aftonbladet og greint frá því að það hafi séð ofbeldið. Þeirra á meðal er Lovisa sem segir að 200 manns hafi verið að horfa á upptökuna þegar hún sá hana. Hún hafi fyrst haldið að þetta væri skipulagt grín en svo var ekki.

Lögreglan biðlaði í morgun til almennings um að dreifa ekki myndskeiðinu enda sé það saknæmt. Rannsókn sé á byrjunarreit og ef fólk hafi myndskeiðið undir höndum þá er það beðið um að senda það til lögreglu. Alls ekki dreifa því, af tillitsemi við konuna sem varð fyrir ofbeldinu.

Lisa True Ervik, upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Uppsala, segir að vitað sé að einhverjir hafi hlaðið myndskeiðinu niður og það sé því enn í umferð þrátt fyrir að hafa verið fjarlægt af Facebook. 

True Ervik segir að auk þess séu mennirnir grunaðir um eiturlyfjamisferli og ærumeiðingar. Einn mannanna virðist sveifla vopni í myndskeiðinu. Á Facebook hafa gengið póstar með nöfnum og myndum af mönnunum þremur og gagnrýnir lögreglan það harðlega. Enda sé rannsóknin á alvarlegum glæp á byrjunarreit. Slíkar birtingar geti virkað sem hvatning  á suma að beita ofbeldi og slíkt beri að taka alvarlega.

Lögreglan hefur boðað til blaðamannafundar í tengslum við málið síðar í dag. Ástæðan fyrir því að boðað er til blaðamannafundar er meðal annars sú að myndskeiðið hefur farið víða og borist ábendingar um það frá fleiri löndum Evrópu og jafnvel Kína.

Frétt sænska ríkisútvarpsins

Frétt Aftonbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert