Tók með sér mikla fjármuni

Rúmlega 11 milljónir bandaríkjadala (ríflega 1,2 milljarða króna) vantar í fjárhirslur Gambíu eftir að Yahya Jammeh, fyrrverandi forseti landsins, hvarf úr embætti. Jammeh beið ósigur í forsetakosningum í Gambíu á síðasta ári en neitaði lengi vel að viðurkenna úrslitin.

Haft er eftir Mai Ahmad Fatty, ráðgjafa Adama Barrow, forseta Gambíu, að verið sé að reyna að leggja nákvæmt mat á það hversu miklir fjármunir hafi horfið. Talið er að glæsibifreiðum og öðrum verðmætum hafi verið komið fyrir í flutningaflugvél frá Tsjad um það leyti sem Jammeh yfirgaf landið á laugardaginn og fór í útlegð.

Borrow, forseti Gambíu, hefur verið í nágrannaríkinu Senegal og er ekki ljóst hvenær hann snýr til baka en hermenn frá ríkjum í Vestur-Afríku fóru inn í Gambíu fyrir helgi eftir að forsetinn hafði óskað eftir aðstoð Afríkusambandsins og öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert