Börn í skóla á nýjan leik

Nemendur eru mættir aftur í skólann í Mósúl í Írak.
Nemendur eru mættir aftur í skólann í Mósúl í Írak. AFP

Þúsundir íraskra barna hafa sest aftur á skólabekk í Mósúl í Írak. 30 skólar voru opnaðir á sunnudaginn í austurhluta Mósúl sem taka við 16 þúsund börnum. Skólahald hefur ekki verið með eðlilegum hætti undanfarin tvö ár eftir að íslamskt jíhad hefur verið þar í gildi, segir í tilkynningu frá UNICEF.   

Íraski stjórnarherinn og bandamenn hafa unnið að því frá því í októ­ber að ná Mósúl úr hönd­um víga­manna hryðju­verka­sam­tak­anna Ríki íslams. Loka­hnykk­ur áhlaups­ins á borg­ina, sem er síðasta höfuðvígi sam­tak­anna í Írak, hófst í síðasta mánuði.

Nokkrir skólar hafa verið lokaðir í allt að tvö ár og stúlkum verið meinuð skólaganga. 

Þrátt fyrir að börnin geti hafið skólagöngu á ný mun það taka langan tíma að byggja upp skólahald á nýjan leik.   

„Eftir martröð síðustu tveggja ára er þetta mikilvæg stund. Börnin í Mósúl geta nú haldið áfram að mennta sig í von um betri framtíð,“ segir Peter Hawkins, full­trúi UNICEF í Írak. 

Frá því Ríki íslams náði yfirráðum á svæðinu hafa hópar úr þeirra röðum notað skólana til að innræta börnum öfgafulla hugmyndafræði samtakanna. Í myndböndum hryðjuverkasamtakanna hefur meðal annars verið sýnt frá því að börn eru látin taka fólk af lífi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert