Geta keypt smábörn til að níðast á

Mynd úr safni og ekki af börnum sem eru fórnarlömb …
Mynd úr safni og ekki af börnum sem eru fórnarlömb barnaníðinga. Barnaníðinga er að finna um allan heim og þeir notfæra sér eymd og fátækt fólks til þess að svala hvötum sínum. AFP

Sænskum barnaníðingum býðst að kaupa börn allt niður í fjögurra ára til að níðast á. Börnin eru boðin upp á netinu og þar ganga níðingarnir frá viðskiptunum. Síðan geta þeir hitt börnin og nauðgað þeim. Fleiri hundruð börn ganga kaupum og sölum með þessum hætti, segir sænskur maður búsettur í Asíu í viðtali við Svenska dagbladet og Aftonbladet. Sænsk yfirvöld hafa ákveðið að herða viðurlög við barnaníði á netinu í kjölfar umfjöllunar fjölmiðla.

Undanfarið hafa sænsku fjölmiðlarnir SvD og Aftonbladet fjallað mikið um sænska barnaníðinga.

Agders Ahlqvist, sem stýrir rannsóknardeild sænsku lögreglunnar á sviði tölvuglæpa, staðfestir við SvD að unnið sé að því að breyta löggjöfinni í kjölfar umfjöllunarinnar.  

Svíinn, sem er búsettur í Asíu, segir að Svíum, sem og öðrum, bjóðist núna að fara inn á síður á netinu þar sem þeir geti skoðað myndir af börnum sem gangi þar kaupum og sölum. Valið sér barn til þess að níðast á af eins konar póstlistum. Þetta fari fram á huliðsvefjum (darknet) þar sem hópar fólks með sömu áhugamál, sem ekki þola dagsljósið, koma saman. Þar er að finna póstlista með myndum af hundruðum nakinna barna.

Börnin eru algjörlega varnarlaus og barnaníðingarnir geta keypt sér aðgang að þeim. Þeir borga fyrir börnin og fá þau til frjálsra afnota í einhvern tíma. Að sögn Svíans fara viðskiptin fram með eftirfarandi hætti: Kaupandinn segir hvaða barn eða börn hann vill. Til að mynda svona marga daga með Lisu og svona marga daga með Pelle. Ef af viðskiptum verður fá níðingarnir börnin og beita þau því ofbeldi sem þeim hentar og taka það upp. Efninu er síðan deilt með öðrum sem hafa áhuga á að horfa á ofbeldi sem þetta.

Ahlqvist segir lögregluna fagna þessu enda hafi hún þrýst á breytingar í mörg ár. Því fjölmargir barnaníðingar gangi lausir í Svíþjóð án þess að hægt sé að lögsækja þá. Lögreglan telur að með því leggja aukna áherslu þennan málaflokk verði hægt að veita börnum meiri vernd fyrir slíku ofbeldi.

Hér er hægt að fylgjast með umfjöllun SvD um þennan málaflokk

Hér er umfjöllun Aftonbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert