Neyðarástandi lýst yfir í Kaliforníu

AFP

Ríkisstjóri Kaliforníu, Jerry Brown, lýsti í gærkvöldi yfir neyðarástandi í nokkrum sýslum ríkisins. Er það gert í þeirri von að auðveldara verði að veita nauðsynlega aðstoð vegna tjóns af völdum óveðurs sem herjað hefur á ríkið undanfarna tvo mánuði.

Snemma í desember olli úrhellisrigning samfara hávaðaroki miklu tjóni í Kaliforníu, ríki sem hefur glímt við þurrka í langan tíma. Ástandið batnaði ekki í byrjun janúar þegar rok og rigning herjuðu á ríkið á nýjan leik. Ekkert lát hefur verið á veðurofsanum undanfarið og er töluvert tjón af völdum hans.

Líkt og mbl.is hefur fjallað um undanfarna daga hefur óveður í Suðurríkjum Bandaríkjanna kostað að minnsta kosti 19 lífið og fjölmargir hafa slasast í veðurofsanum. Varað er við roki, rigningu og aurskriðum víða um Bandaríkin en veðurhamurinn færist í austurátt. 

Fjórir létust í Mississippi og 15 í Georgíu í skýstrókum og þrumuveðri um helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert