Sprengdi sprengju til að fagna barni

Blái reykurinn átti að tákna kyn frumburðarins en Sterkel og …
Blái reykurinn átti að tákna kyn frumburðarins en Sterkel og kona hans eiga von á strák í júní. Skjáskot/YouTube - Jon Sterkel

Bandarískur karlmaður stendur frammi fyrir allt að eins árs fangelsisvist og 115 þúsund króna sekt fyrir að hafa sett af stað sprengingu til að fagna því að hann og konan hans ættu von á strák.

Jon Sterkel, sem er sérfræðingur í ræktun og umhirðu trjáa sagði í samtali við BBC að hann hefði notað sprengifimt riffilskotmark sem sendi bláan reyk í bylgjum út í loftið. Blái reykurinn orsakaðist af bláu krítardufti og átti að segja umheiminum frá því að konan hans ætti von á strák.

Á meðfylgjandi myndbandi má heyra Sterkel hrópa: „Það er strákur!“

BBC hefur einnig eftir Sterkel að hann hyggist ekki endurtaka leikinn þegar frumburðurinn fæðist í júní. Spurður um hvort búið sé að ákveða nafn sagði Sterkel: „Mögulega Wesson, til heiðurs rifflaframleiðendunum Smith og Wesson.“

Vissi ekki að athæfið væri ólöglegt

Sterkel hefur beðist afsökunar á athæfinu en sprengingin mun hafa verið svo hávær að hægt var að heyra í henni í 5 km fjarlægð. Að sögn Sterkel vissi hann ekki að athæfið væri ólöglegt og segir hann að flestir lögreglumenn sem hann hefur talað við hafi ekki heldur vitað það.

„Sprengiefnin sem ég keypti eru aðgengileg í flestum stórverslunum.“

Lögreglumenn í nærliggjandi bæ heyrðu í sprengingunni og voru einhverjir íbúar bæjarins hræddir um að stórslys hefði átt sér stað. Að sögn Sterkel hringdi hann samstundis í lögregluna til að láta vita hvað hefði gerst og biðjast afsökunar á athæfinu.

Sterkel gæti nú verið ákærður fyrir að sprengja sprengju án leyfis. Enginn skaði varð á hlutum eða fólki en Sterkel gæti samt sem áður endað í fangelsi og fengið sekt upp á allt að 115 þúsund krónur eða 1.000 bandaríkjadollara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert