Trump samþykkir tvær nýjar olíuleiðslur

Donald Trump á fundi fyrr í dag.
Donald Trump á fundi fyrr í dag. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur samþykkt að leggja tvær mjög umdeildar olíuleiðslur með sérstakri tilskipun í krafti embættisins.

Annars vegar er um að ræða Keystone XL-olíuleiðsluna, sem er ætlað að flytja hráolíu frá Kanada til olíuhreinsunarstöðva við Mexíkóflóa, og aðra umdeilda olíuleiðslu í Norður-Dakótaríki.

Barack Obama hafði áður hafnað því að Keystone-leiðslan yrði lögð, meðal annars vegna þrýstings frá umhverfisverndarsinnum.

Frétt mbl.is: Obama hafnaði Keystone-leiðslunni

Kanadíska ríkisstjórnin, undir forystu forsætisráðherrans Justins Trudeau, hefur aftur á móti varfærnislega stutt áætlanir um lagningu Keystone, í von um aukin viðskipti.

Bandarískur almenningur hefur mótmælt Dakóta-leiðslunni.
Bandarískur almenningur hefur mótmælt Dakóta-leiðslunni. AFP

Herinn neitaði að gefa leyfi

Fyrirhugaðar framkvæmdir í Dakóta, um hina svokölluðu Dakota Access-leiðslu, hafa verið öllu umdeildari að undanförnu.

Afkomendur frumbyggja Bandaríkjanna og stuðningsmenn þeirra hafa mótmælt verkefninu harðlega, sem leiddi til þess að verkfræðideild Bandaríkjahers neitaði að gefa leyfi fyrir framkvæmdunum.

Þúsundir manna höfðu þá slegið upp tjaldbúðum þar sem leiðslan átti að liggja um.

Standing Rock Sioux-ættbálkurinn hefur lýst áhyggjum af mögulegri vatnsmengun, og sagt að leiðslan myndi stefna í hættu heilögum söguminjum.

En Trump hefur stutt olíuleiðsluna, sem á að verða 1.886 kílómetra löng og liggja í gegnum fjögur ríki Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert