Segir Marokkóbúa vera úrhrök

Hollenski þingmaðurinn Geert Wilders hóf kosningabaráttuna formlega í dag en Hollendingar kjósa sér nýtt þing 15. mars. Wilders, sem er formaður Frelsisflokksins, segist vilja gera Holland þeirra á ný og sagði innflytjendur frá Marokkó vera úrhrök. Frelsisflokkurinn er þjóðernisflokkur sem nýtur mikilla vinsælda meðal hollenskra kjósenda og stefnir í að verða stærsti flokkur landsins ef marka má skoðanakannanir.

Wilders hefur ítrekað komist í fréttirnar fyrir níð sitt um innflytjendur en orðræða hans minnir mjög á Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Hann tók þó fram í ræðu sinni í dag að ekki væri öll þjóðin, Markokkóbúar, úrhrök en margir þeirra sem búi í Hollandi séu það. Það sé þeim að kenna að það sé hættulegt að vera á götum úti í Hollandi. Einkum og sér í lagi unga kynslóð Marokkóbúa í Hollandi. Þessu verði að breyta. 

„Ef þið viljið endurheimta landið ykkar, ef þið viljið Holland fyrir hollensku þjóðina getið þið ekki annað en gefið Frelsisflokknum atkvæði ykkar, “ sagði Wilders við stuðningsmenn sína í bænum Spijkenisse.

„Vinsamlegast gerið Holland að okkar landi á ný,“ sagði Wilders á meðan stuðningsmenn svöruðu: „Wilders! Wilders!“ 

Þegar Wilders er spurður að því hverjir séu stuðningsmenn hans svarar hann að það séu allir Hollendingar með heilbrigða skynsemi og svo vel vilji til að það séu margir Hollendingar. 

Þingmaðurinn hefur ýjað að því að banna kóraninn og loka moskum verði hann sigurvegari kosninganna. Wilders var dæmdur fyrir mismunun í desember vegna ummæla um Marokkóbúa sem eru búsettir í Hollandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert