Blóðugasta orrustan í uppsiglingu?

Íraskir hermenn á leið inn í borgina Mósúl.
Íraskir hermenn á leið inn í borgina Mósúl. AFP

Um tvö þúsund vígamenn Ríkis íslams eru enn í vesturhluta borgarinnar Mósúl. Íraski herinn hefur sótt þar fram af hörku síðustu klukkustundir. Er orrustan um borgina hófst í október var talið að um 5-7000 vígamenn væru þar fyrir.

Írak nýtur stuðnings bandalagsríkja í orrustum sínum, m.a. Bandaríkjamanna. Heimildarmenn innan Bandaríkjahers segja að mikið mannfall hafi verið í liði Ríkis íslams í bardögunum síðustu fjóra mánuði.

Tugir þúsunda hermanna Írakshers taka þátt í aðgerðunum og njóta stuðnings bandalagsríkja, m.a. úr lofti. 

Ríki íslams náði yfirráðum í borginni árið 2014.

Sérfræðingar telja að áhlaupið á borgina nú kunni að verða það blóðugasta frá því átökin hófust í október. 

Í dag komust hermenn Íraka inn á flugvöllinn í Mósúl. Var það áfangasigur í áhlaupinu. Um 750 óbreyttir borgarar eru á svæðinu. Fólkið á sér fáar flóttaleiðir og hungrið sverfir að eftir margra mánaða herkví.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert