Neita að rannsaka ofbeldið

Frá Kongó.
Frá Kongó. AFP

Stjórnvöld í Kongó neita að rannsaka tvö myndbönd sem sýna kongóska hermenn taka af lífi óbreytta borgara. Myndböndin hafa dreifst víða um netheima sem sýna meðal annars hermenn umkringda fjölmörgum mannslíkum kveikja eld á Kasai-landsvæði. 

Zeid Ra'ad Al Hussein, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur fordæmt atvikið og krefst þess að stjórnvöld í Kongó rannsaki ódæðið. Í sama streng taka kollegar hans í Washington í Bandaríkjunum og í París í Frakklandi. 

„Það er ekki okkar hlutverk að sýna fram á sakleysi hermanna Kongó.“ Þetta sagði í tilkynningu frá stjórnvöldum í Kongó. Jafnframt var því haldið fram að myndbandið væri viðvaningslega gert og að þetta væri herferð gegn Kongó. 

Stjórnvöld í Kongó hafa viðurkennt að mögulega tveir þeirra hermanna sem sjást á myndbandinu ættu yfir höfði sér ákæru fyrir að „fara ekki eftir reglum“. Hins vegar var þvertekið fyrir að þeir væru mögulega sekir um ofbeldisbrot.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert