Rændu sex skipverjum

Filippseyska strandgæslan við eftirlit.
Filippseyska strandgæslan við eftirlit. AFP

Sjóræningjar gerðu árás á flutningaskip sem sigldi undir víetnömskum fána undan ströndum Filippseyja. Einn skipverji féll í árásinni og tóku sjóræningjarnir sex í gíslingu.

Árásir sem þessar eru tíðar á svæðinu.

Árásin á flutningaskipið MV Giang Hai var gerð í gær skammt frá ströndum eyjunnar Baguan. 

Filippseyska strandgæslan fór á hraðbátum á vettvang en þegar að var komið voru sjóræningjarnir á bak og burt. 

Enn hefur ekki verið staðfest hvort að árásarmennirnir tengist filippseysku öfgasamtökunum Abu Sayyaf en þau eru þekkt fyrir að ræna fólki og krefjast lausnarfés.

Hafsvæðið milli Malasíu og Filippseyja hefur orðið hættuleg siglingaleið á síðustu árum vegna sjórána. Stjórnvöld hafa varað við því að hættuástand líkt því sem sómalskir sjóræningjar ollu í Indlandshafi sé í uppsiglingu.

Varnarmálaráðherra Filippseyja sagði í síðasta mánuði að hann ætlaði að leita til bandamanna sinna í Bandaríkjunum um aðstoð. Þá hefur forseti landsins, Rodrigo Duterte, beðið Kínverja um að efla gæslu á hafsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert