Saka Rússa um aðild að valdaránstilrauninni

Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands segir áskanirnar um afskipti rússneskra ráðamanna …
Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands segir áskanirnar um afskipti rússneskra ráðamanna af valdaránstilrauninni vera tilhæfulausar með öllu. AFP

Stjórnvöld í Rússlandi hafna alfarið ásökunum um að þau hafi átt þátt í misheppnaðri valdaránstilraun í Svartfjallalandi síðasta haust. Segja þau slíkar ásakanir vera „fáránlegar“ og án nokkurs grundvallar.

Hin meinta valdaránstilraun er sögð hafa átt að eiga sér stað nokkrum klukkustundum áður en íbúar Svartfjallalands gengu að kjörborðinu í október á síðasta ári og var hópur fólks þá handtekinn.

Fréttavefur BBC segir serbneskum og rússneskum uppreisnarmönnum hafa verið eignuð tilraunin á þeim tíma, en að saksóknarinn Milivoje Katnic hafi nú nefnt yfirmann í rússneska hernum sem stjórnanda aðgerðanna.

Segir Katnic að Eduard Sismakov, fyrrverandi yfirmaður í hernum, hafi boðið serbneskum þjóðernissinnum til Moskvu með það að markmiði að koma í veg fyrir að Svarfjallaland gangi í NATO.

Eru tilræðismennirnir sagðir hafa ætlað sér að ráða forsætisráðherrann Milo Djukanovic af dögunum.

Þá hefur sunnudagsútgáfa breska dagblaðsins Telegraph eftir heimildamönnum innan bresku stjórnsýslunnar að áætluninni hafi verið stjórnað af yfirmönnum innan rússnesku leyniþjónustunnar og með blessun ráðamanna í Mosku.

20 manns sem grunaðir voru um aðild að tilræðinu voru handteknir nokkrum klukkustundum áður en kjörstaðir í Svartfjallalandi opnuðu. Ríkissaksóknari Svartfjallalands nefndi í nóvember Rússana Eduard Shirokov og Vladimir Popov sem heilann á bak við valdaránstilraunina. Í gær sagði Katnic hins vegar að Shirokov væri dulnefni Sismakov og að þjóðernissinnar í Rússlandi stæðu að tilrauninni. „En við vitum núna að embættismenn rússneska ríkisins áttu einnig sinn þátt,“ sagði hann og hvatti rússnesk stjórnvöld til að rannsaka málið.

Talið er líklegt að Svartfjallaland gangi í NATO á þessu ári, en stjórnarandstaðan í landinu hefur krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um málið og hefur nokkur spenna verið í samskiptum ríkja á Balkanskaga vegna þessa.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hafnaði ásökununum alfarið í dag og sagði þær „fáránlegar“. Þær væru á pari við þær fullyrðingar að leyniþjónusta Rússlands hefði tengsl við stjórn Donald Trumps Bandaríkjaforseta og Rússar stæðu að baki stuldi á tölvugögnum frá bandarískum stofnunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert