Bók um sjálfsfróun barna veldur deilum

Bókin hefur vakið reiði margra foreldra og virðast sérfræðingar sammála …
Bókin hefur vakið reiði margra foreldra og virðast sérfræðingar sammála umað lesefnið sé frekar ætlað foreldrum, sem eigi síðan að fræða börn sín eftir því sem við á. Skjáskot/ Tiga Serengkai

Miklar deilur eru nú uppi í Indónesíu vegna barnabókar sem fræðir börn um sjálfsfróun. Mynd af bókinni sem heitir „Ég læri að hafa stjórn á mér“, og er eftir höfundinn Fita Chakra, hefur verið deilt víða á samfélagsmiðlum. Miklar umræður hafa spunnist um bókina, sem vakið hefur reiði margra foreldra að því er fréttavefur BBC greinir frá.

„Mæður verið vakandi þegar þið kaupið bækur fyrir börn ykkar. Skoðið innihald þeirra og skoðið það aftur,“ skrifaði ein móðirinn á Facebook. Annar Facebook notandi spurði: „Ef þetta er kynlífsfræðsla af hverju eru lýsingarnar svona ítarlegar?“

Mynd af einni þeirra opnu bókarinnar sem notendur samfélagsmiðla deila sýnir teikningu af dreng sem liggur í rúmi með textanum: „Ég krossa fæturna utan um púðann. Til skemmtunar hreyfi ég mig upp og niður. Oh... þetta er gott. Hjarta mitt slær hratt, en ég er glaður.“

Önnur síða sýnir barn segja: „Ég fann nýjan skemmtilega leik. Ég set hendurnar ofan í nærbuxur mínar og endurtek þetta aftur og aftur.“

Umræður um kynlíf fullorðinna er forboðið umræðuefni í múslimaríkjum á borð við Indónesíu, hvað þá samræður foreldra og barns um kynlíf. Það er hins vegar vaxandi skilningur á að sé nauðsynlegt að fræða börn um kynlíf, m.a. til að forða þeim frá misnotkun.

Bók Chakra hefur engu að síður verið úrskurðuð hættuleg börnum af indónesísku barnaverndarnefndinni sem segir hana geta leitt til „kynferðisbrenglunar“.

Útgefandinn Tiga Serangkai, segir bókinni hafa verið ætlað að fræða börn um hvers vegna þau hafi ákveðnar tilfinningar, en að hegðunin sé óviðeigandi og feli í sér mögulegar heilsufarshættur.

„Bókin er ætluð foreldrum sem telja börn sín sýna af sér svona hegðun,“ sagði hann. Bókin var tekin úr sölu í verslunum í desember á síðasta ári, en hún er þó enn til sölu í sumum netverslunum.

Höfundurinn Chakra, sem hefur skrifað fjölda bóka um tilfinninga- og líkamsþroska barna sagði í færslu á Instagram að sér þætti leitt að  fólk væri að birta eina eða tvær síður úr bókinni án samhengis.

„Ég átti í djúpum samræðum við ritstjórann áður en bókin var gefin út,“ sagði hún. „Okkar tilgangur er að fræða börn um það hvernig þau geti varið sig fyrir kynferðislegri misnotkun. Ef bókin er lesin í gegn þá má sjá þar ráð fyrir foreldra, enda á að lesa þessa bók með foreldrum.“

BBC hefur eftir barna og fjölskyldusálfræðingnum Veru Itabiliana að bókin sé ætluð röngum lesendahópi.  Því að þó að það sé mikilvægt að fræða börn um kynlíf, þá eigi svona bók að vera skrifuð eingöngu með foreldra í huga. Það sé síðan þeirra að fræða börn sín.  

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem bók veldur deilum í Indónesíu. Þannig spruttu miklar deilur um bókina „Það er orðið tímabært að ég fari á stefnumót“ eftir Toge Aprilianto árið 2015, sem talin var hvetja unglinga til kynlífshegðunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert